Nýjar tillögur: Framlög jöfnunarsjóðs sveitarfélaga skert í 7 sveitarfélögum á Vestfjörðum

Súðavík. Þar eru hlutfallslega flestir erlendir ríkisborgarará Vestfjörðum. Mynd: Þorsteinn Haukur.

Í nýjum tillögum um úthlutun fjár úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga frá starfshópi Innviðaráðherra munu árleg framlög til sjö sveitarfélaga á Vestfjörðum minnka um nærri 280 milljónir króna á ári. Þau munu skerðast um 57% til Súðavíkur, um 53% til Reykhólahrepps og um 29% til Tálknafjarðarhrepps. Hins vegar munu framlögin aukast um 200 milljónir króna til tveggja sveitarfélaga á Vestfjörðum , þar af um 171 m.kr. til Ísafjarðarbæjar eða um 21%.

Þrjú af fimm hæstu framlögunum síðustu ár fara til sveitarfélaga á Vestfjörðum. Lagt er til að breyta þessu umtalsvert.

Í skýrslu starfshópsin segir að núverandi Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hafi orðið til um 1990 og síðan hafi sveitarfélögum fækkað úr 204 í 64 og líklegt sé að þeim fækki enn á næstu árum. Regluvert sjóðsins hafi hins vegar ekki breyst í áranna rás.

Birt er tafla yfir áhrif tillagna starfshópsins á framlög til einstakra sveitarfélaga. Varðandi Vestfirði má sjá að framlögin lækka verulega í mörgum þeirra. Í Reykhólahreppi lækka þau um 92 m.kr. eða um 53%. Súðavíkurhreppur verður fyrir 57% skerðingu eða 66 m.kr. á ári. Árneshreppur er alveg strikaður út og fær engin framlög og í Kaldrananeshreppi eru framlögin lækkuð um 79%. Strandasýsla fer illa út úr þessum breytingum og missir nærri 2/3 af núverandi framlögum.

Það eru aðeins Bolungavík og Ísafjarðarbær sem fá aukningu í tillögunum. Framlögin til Bolungavíkur aukast um 15% og til Ísafjarðarbæjar um 21%.

Í heildina lækka framlögin til Vestfjarða um 80 m.kr. á ári.

DEILA