MERKIR ÍSLENDINGAR – SARA VILBERGSDÓTTIR

Sara Vilbergsdóttir fæddist á Flateyri þann 12. október árið 1935.

Foreldrar hennar voru Jóhanna Steinunn Guðmundsdóttir, húsmóðir, f. 24.9. 1900,  – d. 13.1. 1982, og Vilberg Jónsson, vélsmiður, f. 26.5. 1900, – d. 14.4. 1960.

Systkini Söru:
Guðmundur Viggó Vilbergsson, látinn, Jón Aðalsteinn Vilbergsson, látinn  og Vilberg Valdal Vilbergsson á Ísafirði.

Sara giftist þann 2. júlí 1956 Guðmundi Kristjánssyni, vélvirkja, f. 25. júlí 1932, – d. 26. ágúst 2022.

Börn þeirra eru:

Jón Ingiberg – Jóhanna Steinunn, látin  –Sigríður –Vilborg og Kristján Vilberg.

Sara ólst upp á Flareyri og bjuggu þau Sara og Guðmundur á Flateyri til ársins 1988, en fluttu þá í Reykjanesbæ og bjuggar þar síðan.

Ásamt húsmóðurstarfi vann Sara við afgreiðslustörf, í fiskvinnslu, á leikskóla, og við kennslu.

 Hjartansmál Söru Vilbergsdóttur var tónlist.



Sara Vilbergsdóttir lést á hjúkrunarheimilinu Garðvangi í Garði þann 19. mars 2011.

Útför Söru fór fram frá Ytri Njarðvíkurkirkju þann 30. mars 2011.

__________________________________________________________



Minningarorð  Rúnars, Söru, Bryndísar og Svanhildar Vilbergsbarna á útfarardegi Söru Vilbergsdóttur þann 30. mars 2011.

Þær eru fallegar minningarnar um Söru frænku og margar hverjar sveipaðar ævintýraljóma.

Sem börn vorum við mikið á Flateyri á sumrin og bjuggum þá gjarnan hjá henni og Mumma. Það var alltaf tilhlökkunarefni að koma til Flateyrar. Þar áttum við stóran hóp frændsystkina á líku reki.

Sara frænka var okkar Mary Poppins og dreif okkur með sér á vit ævintýranna dag hvern, svo full af lífi, uppátækjasemi og smitandi gleði.

Á góðviðrisdegi átti hún það til að grípa gítarinn og setjast út í garð. Syngjandi og spilandi hreif hún okkur með sér og brátt runnu börnin á eyrinni á hljóðið og slógust í hópinn. Stundum skundaði hún jafnvel upp í hlíð fyrir ofan þorpið með krakkastrolluna marserandi á eftir sér og allir sungu saman.

Sara var mjög músíkölsk og spilaði jöfnum höndum á hljómborð og gítar; í danshljómsveit, í kirkjunni og hjá Leikfélagi Flateyrar. Hún þjálfaði börnin sín fimm í samsöng svo unun var á að hlýða. Sögur sagði hún á svo lifandi hátt að það var næstum eins og að horfa á bíómynd. Þetta voru sögur af fólki úr fortíð og nútíð, af skemmtilegum tilsvörum og samskiptum svo jafnvel hversdagslegustu atburðir urðu að ævintýri.

Sara hafði svo innilega og geislandi nærveru og það var alltaf svo bjart í kringum hana. Hún hafði þann fágæta eiginleika að hlusta með opnum huga, af óskiptri athygli og jákvæðri eftirvæntingu.

Sara var sérlega úrræðagóð og snillingur í að töfra fram dýrindis hluti úr litlum efniviði, eins og þegar hana vantaði samkvæmiskjól til að skarta á Stútungi, þar sem hún átti að spila fyrir dansi. Þá hugkvæmdist henni að taka niður fagurmunstraða stofugardínu. Hún lagði hana á gólfið og lagðist síðan sjálf ofan á hana, teiknaði útlínur sínar og tók svo til við að klippa og sauma, svo úr varð forláta samkvæmiskjóll.

Eftir að Sara og Mummi fluttu til Njarðvíkur leið ekki á löngu áður en hún var fengin til að spila með leikfélaginu og við ýmis önnur tækifæri. Hún starfaði einnig á leikskóla um nokkurra ára skeið og fór ekki á milli mála þegar hún talaði um börnin hvað hún naut þess að vinna með þeim.

Það var fallegt að sjá hvað samband Söru og Mumma var hlýtt og kærleiksríkt. Á myndum sem teknar voru af þeim á ljósmyndastofu fyrir nokkrum árum eru þau eins og ástfangnir unglingar, geislandi af gleði. Stuttu síðar fór að bera á veikindunum sem hún átti við að etja síðustu árin. Það voru mikil viðbrigði þegar Sara, sem ávallt hafði verið stálminnug, fór smátt og smátt að missa minnið og hverfa frá okkur. Í hönd fóru erfiðir tímar hjá aðstandendum. Í veikindunum naut hún ástúðar og umhyggju fjölskyldunnar og góðrar aðhlynningar á hjúkrunarheimilinu Garðvangi. Það var eftirtektarvert hvað Mummi annaðist hana af mikilli ástúð.

Elsku Mummi, Nonni, Hanna, Sigga, Villý, Kiddi Villi og aðrir ástvinir, megi æðri máttur veita ykkur styrk í sorginni.

Takk fyrir allt, elsku Sara. Þú skilur eftir þig fjársjóð af góðum minningum sem eiga eftir að ylja okkur um ókomna tíð.

Rúnar, Sara, Bryndís og Svanhildur Vilbergsbörn.



Sara Vilbergsdóttir og börn á -Önfirsku Bítlavökunni- sem haldin var að Efstalandi í Ölfusi þann 6. október árið 1990.
F.v.: Sigríður – Jóhanna Steinunn – Vilborg – Kristján Vilberg – Jón Ingiberg og Sara Vilbergsdóttir.   Ljósm.: Spessi.

-Eyrarrósirnar- og Villi Valli í Íþróttahúsinu á Flateyri í júní árið 1992 þegar haldið var veglega uppá 70 ára afmæli Flateyrarhrepps hins forna.
F.v.: Geira Helgadóttir – Inga Margrét Kristjánsdóttir – Vilberg Vilbergsson – Sara Vilbergsdóttir og Jónína Ásbjarnardóttir.
Ljósm.: Guðmundur Ragnar Björgvinsson.

DEILA