Finnur Ólafsson, oddviti Kaldrananeshrepps segir að nýjar tillögur um útdeilingu fjár úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga séu til þess fallnar að svelta fámenn sveitarfélög til sameiningar. Hann segist gáttaður á þeirri leið sem lögð er til og skilji ekki hugmyndafræðina á bak við hana. Það gefi auga leið að þegar framlög úr Jöfnunarsjóði eru skert mikið þá geti sveitarfélögin ekki haldið uppi sama þjónustustigi. Fyrir íbúana er það lítið til gagns að þjónustan verði í boði í fjarlægum byggðakjörnum svo sem lesa megi úr tillögunum, en framlög auaist til nokkurra sveitarfélaga sem nefnd eru fjölkjarna. Í tillögunum sem nú eru til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda, er lagt til að framlög til Kaldrananeshrepps lækki úr 25 m.kr. á ári í 5 m.kr. eða um 79%. „Það er verið að svelta sveitarfélögin til sameiningar“ sagði Finnur Ólafsson.
Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri í Reykhólahreppi sagði að það liti ekki vel út fyrir Reykhólahrepp verði þetta að veruleika. „Við erum enn að átta okkur á þessum tillögum og viðbrögðum við þeim“ sagði hún en lagði áherslu á að þessar tillögur hafi ekki verið samþykktar. Framlög til Reykhólahrepps munu skerðast um 53% eða um 92 m.kr. á ári gangi tillögurnar eftir.
Bragi Thoroddsen, sveitarstjóri í Súðavík sagði að þessi vegferð hefði hafist með grænbók árið 2019 og að þeirri vinnu væri ekki lokið. „Sumt er fyrirsjáanlegt og hér höfum við bara angann af því. Ég mun að sjálfsögðu setja inn umsögn í samráðsgáttina enda hefur þetta talsverð áhrif Súðavíkurhrepp svo sem fram kemur í fréttinni.“ Framlög til Súðavíkur munu skerðast um 57% samkvæmt tillögunum eða um 66 m.kr. á ári. „Ef svo fer sem horfir þá gleðst ég bara með Bolungarvík og Ísafjarðarbæ“ bætti Bragi við , en þau eru einu sveitarfélögin á Vestfjörðum sem munu fá aukin framlög.
Þorgeir Pálsson, oddviti og sveitarstjóri í Strandabyggð sagði að sveitarstjórn muni taka málið fyrir á sveitarstjórnarfundi sem haldinn verður síðar í dag og vildi ekki að svo stöddu ekki tjá sig um málið. Framlög Jöfnunarsjóðsins munu lækka um 73 m.kr. á ári samkvæmt tillögunum sem fyrir liggja og jafngildir það 37% niðurskurði.