Bæjarráð Ísafjarðarbæjar er sammála um að fast vökvunarkerfi verði á hliðarlínum væntanlegs gervigrasvallar á Torfnesi. Þetta var ákveðið á fundi bæjarráðs á mánudaginn.
Lagt var fram minnisblað sviðsstjóra umhverfis og eignasviðs um vökvun og vetrarþjónustu gervigrasvalla. Þar voru kynntir þeir kostir sem í boði eru við vökvun gervigrass og farið yfir kosti og galla hvers þeirra. Einnig var lagt fram minnisblað skipulagsfulltrúa um vetrarþjónustu valla án upphitunar í Noregi.
Eftir umræður um vökvunarkerfi, snjómokstur og tegund grass var bæjarstjóra falið að útbúa uppfærða kostnaðaráætlun fyrir mismunandi sviðsmyndir við lagningu nýs vallar, s.s. varðandi hækkun vallarins, drenlagnir, ljós, hitalagnir, vökvunarkerfi, mokstur, gras o.fl., bæði vegna aðalvallar og æfingavallar og leggja fyrir bæjarráð.