Volaða Land, margverðlaunuð stórmynd Hlyns Pálmasonar verður frumsýnd hér á landi 10. mars næstkomandi. Í framhaldinu hyggst leikstjórinn ásamt aðalleikurunum þeim Ingvari E. Sigurðssyni og Elliott Crosset Hove að halda í hringferð um landið með myndina. Þannig er ætlunin að hafa sérstakar sýningar þar sem áhorfendum gefst tækfiæri til að spjalla við leikstjórann og leikarana að sýningu lokinni. Þessar sýningar munu fara fram þann 10. mars á Ísafirði kl.20, þann 11. mars á Patreksfirði kl.12 að hádegi og á Akureyri um kvöldið kl.20, og að lokum þann 12. mars á Seyðisfirði kl.20.
Volaða Land, sem er þriðja kvikmynd Hlyns Pálmasonar í fullri lengd, er stórbrotin saga af baráttu manns við náttúruna, trúna og sitt dýrslega eðli. Undir lok 19.aldar ferðast ungur danskur prestur til Íslands í þeim tilgangi að reisa kirkju og ljósmynda íbúa eyjunnar. Sérvitur leiðsögumaður leiðir prestinn í gegnum harðneskjulegt landið á hestbaki ásamt hópi heimamanna. Eftir því sem líður á ferðalagið missir presturinn tökin á veruleikanum, ætlunarverkinu, og eigin siðgæði.
Myndin var frumsýnd á Cannes síðastliðið vor við standandi lófaklapp segir í tilkynningu frá aðstandendum myndarinnar. Þaðan hefur myndin ferðast víða um lönd og hlotið mikið lof gagnrýnenda t.a.m. í Frakklandi, Danmörku og Bandaríkjunum. Gagnrýnandi Morgunblaðsins gaf einnig myndinni 5 stjörnur og sagði hana eina af bestu myndum ársins. Aðrir erlendir miðlar hafa meðal annars talað um hana sem stórbrotið listaverk, fjársjóð sem minni á margar bestu myndir kvikmyndasögunnar.
„Algjört stórvirki“ – Screen Daily, „Mögnuð“ – La Journal du Dimanche, „Epískt ferðalag sem minnir á verk sumra bestu leikstjóra kvikmyndasögunnar“ – International Cinephile Society, „Kvikmyndin sem hefði átt að hreppa Gullpálmann“ – Slate, „Óviðjafnanleg“ – Jyllands Posten
Þess má geta að Volaða Land hlaut nýlega 11 tilnefningar til Edduverðlaunanna 2023. Myndin hlýtur tilfnefningu fyrir kvikmynd ársins. Hlynur Pálmason fyrir leikstjóra ársins og handrit ársins. Ingvar E. Sigurðsson fyrir leikari ársins í aðalhlutverki. Hilmar Guðjónsson fyrir leikari ársins í aukahlutverki. En aðrar tilnefningar voru fyrir búninga, gervi, myndatöku, tónlist, klippingu og hljóð. Einnig má geta þess að danski leikarinn Elliott Crossett Hove var tilnefndur til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna fyrir hlutverk sitt í myndinni.
Sem fyrr segir verður kvikmyndin frumsýnd 10.mars og eru íbúar á Ísafirði, Patreksfirði, Akureyri og Seyðisfirði þeir fyrstu hér á landi sem eiga þess kost að ræða við leikstjóra og leikara myndarinnar að sýningu lokinni.