Ísafjarðarbær: ræða breytingu vegna farþegagjalda

Skemmtiferðaskipið Oceanic við Sundabakka. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Hafnarstjórn Ísafjarðarbæjar ræddi á síðasta fundi tillögu að uppfærðri gjaldskrá hafna Ísafjarðarbæjar vegna breytinga á orðalagi og fyrirkomulagi bryggjugjalda og farþegagjalda. Lagt er til að breyta farþegagjaldinu á þann veg að innheimt verði einungis eitt gjald 205 kr fyrir hvern farþega og fellt niður sérstakt lægra gjald fyrir barn.

Þá er einnig lögð til breyting á upplýsingaskilum um farþegafjölda. Í núverandi grein hafnarreglugerðarinnar segir að skemmtiferðaskip skuli skila inn farþegalistum minnst einum sólahring fyrir komu en farþegabátar með áætlunarsiglingar til og frá höfnum Ísafjarðarbæjar skili inn gögnum um fjölda farþega mánaðarlega.

Lagt er til að skipstjóri, umboðsmaður eða eigandi farþegaskips skuli afhenda hafnaryfirvöldum upplýsingar um farþegafjölda til innheimtu gjaldsins. Skipstjórar, umboðsmenn eða eigendur þeirra báta sem stunda reglubundna farþegaflutninga skulu skila upplýsingum um farþegafjölda hverrar ferðar mánaðarlega og skal upplýsingum skilað eigi síðar en 3. hvers mánaðar fyrir næstliðinn mánuð. Skili ofangreindir aðilar ekki upplýsingum um farþegafjölda verði heimilt að áætla fjölda farþega fyrir viðkomandi tímabil eða leggja á 25% álag ef skil á farþegatölum dragast umfram 20 daga.

Hafnarstjórn frestaði málinu til næsta fundar að lokinni kynningu á tillögunum.

DEILA