Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt viðauka við fjárhagsáætlun ársins vegna komu flóttamanna. Gert er ráð fyrir að ríkið greiði sveitarfélaginu 30,1 m.kr. og að kostnaður sveitarfélagsins verði 28,7 m. kr. Niðurstaðan er því 1,5 m.kr. tekjuávinningur sveitarfélagsins.
Greiðslur ríkisins eru 24,7 m.kr. vegna flóttamanna sem koma í ár og 5,4 m.kr. vegna móttöku flóttamanna í fyrra.
Langhæsti útgjaldaliðurinn, sem sveitarfélagið greiðir er fjárhagsaðstoð 15,3 m.kr. Miðað er við 190 þús kr. á mán fyrir fullorðinn einstakling. Næsti hæsti liðurinn eru önnur félagsleg úrræði 5 m.kr. og síðan húsaleiga 3.960.000 kr. Sérstakar húsaleigubætur eru áætlaðar 660.000 kr, tannlæknaþjónusta o.fl 450.000 kr. bílaleigubílar 600.000 kr. og 480.000 kr í mötuneyti GÍ vegna barna.
Bæjarstjórnin samþykkti einnig þjónustusamning við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, um samræmda móttöku flóttafólks. Hann hefur ekki verið birtur en kröfulýsing Félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins sem nefnist Þjónusta móttökusveitarfélaga vegna samræmdrar móttöku flóttafólks er opinber.