Flateyringurinn Siggi Björns með tónleika um páskana

Flateyringurinn og trúbadúrinn Sigurður Björnsson, sem býr í Þýskalandi, verður hér á landi um páskana og heldur tónleika bæði i Reykjavík og fyrir vestan. Með honum í för verða Magnús Björnsson, sonur hans og eiginkonan Franziska Günter.

Föstudaginn 31. mars verða þau þrjú með tónleika á Cafe Rosenberg á Vesturgötu í Reykjavík.

Miðvikudaginn 5. apríl verða þau komin vestur til Flateyrar og koma fram á Vagninum. Með þeim verður Guðmundur Hjaltason bassaleikari. Þau flytja eigið efni, nýtt og gamalt, og segja mis-sannar sögur af manni og öðrum lögunum til stuðings.

Ferðinni lýkur svo á tónlistarhátíðinni aldrei fór ég suður föstudagskvöldið 7. apríl og verður það í fjórða sinn sem Siggi Björns kemur fram á þeirri vestfirsku hátíð. Með þeim verða þeir Guðmundur Hjaltason og Stefán Freyr Baldursson.

Siggi Björns spilaði fyrst í Vagninum árið 1987, eða áður en Vagninn varð löggildur pöbb. Í gegnum árin hefur Siggi komið þar við með annað hvort pöbbskrall eða tónleika. Franziska spilaði fyrst á vagninum árið 2016 og hefur komið þar við síðan.  Magnús er í fyrsta skifti með á trommur, og það verður spennandi að sjá og heyra feðgana.  þau ætla sér að taka mark á fyrsta Vagnstjóranum og „bretta upp handleggina“ og gera þetta á fullu ferðinni.

Tónleikarnir á Vagninum byrja klukkan 21.00 og er miðasala við dyrnar.

Miðaverð: 3000 kr.

www.franziskaguenther.com

www.siggi-bjorns.com

DEILA