Tónlistarhátíðin Aldrei fór ég suður verður haldin í sullandi stuði á páskunum á Ísafirði – heimabæ páskahátíðarinnar á Íslandi og sömuleiðis lögheimili lognsins segir í tilkynningu frá aðstandendum hátíðarinnar.
Hún fer fram húsnæði Kampa við Aldrei fór ég suðurgötu föstudaginn 7. apríl og laugardaginn 8. apríl.
Hátíðin sem sleit barnsskónum í sushiverksmiðju árið 2004, fer nú brátt að verða 20 ára gömul en hefur aldrei verið betri, hressari né skemmtilegri. Þess má geta að sushi-ið var einmitt líka fundið upp á Ísafirði.
Hátíðin tilkynnir nú hver það verða sem koma fram á stóra sviðinu og eins og áður er um að ræða góða fjörefnablöndu af heimafólki og öðru landsþekktu tónlistarfólki. Þau sem staðfest eru á hátíðinni eru:
FM BELFAST
ÁRNÝ MARGRÉT
RAGGA GÍSLA
THE VINTAGE CARAVAN
BRÍET
SIGGI BJÖRNS
KVIKINDI
UNA TORFA
LOS BOMBONEROS
GRÓA
RUSSIAN. GIRLS
SIGURVEGARAR MÚSIKTILRAUNA
Það mun því kenna ýmissa grasa á sviðinu í ár, allar stefnur og straumar, öll fá eitthvað, engin fá allt.
Ekki er loku fyrir það skotið að viðbætur við dagskrána yrðu kynntar þegar nær dregur en búast má við fjölda skemmtilegra gesta til Ísafjarðar og nágrannabyggðalaga en páskafjörið nær iðulega yfir fjöllin og ofan í næstu firði. Tónleikar, skíði, plokkfiskur, uppistand og stemning.