320 m.kr. í flutningsjöfnun í fyrra

Birt hefur verið á Alþingi skýrsla innviðaráðherra um framkvæmd svæðisbundinnar flutningsjöfnunar á árinu 2022. Þar kemur fram að 164 m.kr. var varið til flutningsjöfnunar á kostnaði framleiðenda sem staðsettir eru fjarri innanlandsmarkaði eða útflutningshöfn og búa við skerta samkeppnisstöðu vegna hærri flutningskostnaðar en framleiðendur staðsettir nær markaði og 175 m.kr. var ráðstafað til jöfnunar á olíuvörum. Samtals voru um 320 m.kr. til jöfnunar á flutnigskostnaði.

Framleiðendajöfnun: 33% til Vestfjarða

Í fyrri liðinn, til þess að jafna aðstöðu framleiðenda 164 m.kr. var einkum um matvælaframleiðslu að ræða. Þar fengu vestfirsk fyrirtæki samtals 53,9 m.kr. eða um þriðjung af fjárhæðinni. Fjögur vestfirsk fyrirtæki voru meðal þeirra tíu sem fengu hæstu styrkina. Oddi hf á Patreksfirði fékk 13.2 m.kr., Arna ehf í Bolungavík 11,6 m.kr., Arnarlax á Bíldudal 6,3 m.kr. og Íslenskt sjávarfang á Þingeyri fékk 5,7 m. kr. flutningsstyrk.

Til fyrirtækja á Norðurlandi eystra fóru 40 m.kr og var það næsthæsta landssvæðið.

Landinu er skipt upp í svæði 1, svæði 2 og höfuðborgarsvæðið. Aðeins framleiðendur á svæðum 1 og 2 geta sótt um styrk. Þeir sem eru á svæði 1 geta sótt um 10% endurgreiðslu á styrkhæfum flutningskostnaði af flutningi umfram 150 km. Á svæði 2 er hægt að sækja um 10% endurgreiðslu á styrkhæfum flutningskostnaði af flutningi sem er 150-390 km en 20% ef farið er lengra en 390 km. Vestfirðir eru á svæði 2.

Olíujöfnun 175 m.kr.

Til flutningsjöfnunar á olíuvörum var úthlutað 175 m.kr. Mest fékk N1 eða 80 m.kr., Olís 60 m.kr. og Skel 31 m.kr. Sundurliðað eftir landssvæðum þá fór mest til Austurlands 60,2 m.kr og næstmest til Vestfjarða 38,6 m.kr. Til Norðurlands eystra fóru 32,4 m.kr.

DEILA