Golfklúbbur Patreksfjarðar hefur sótt um framkvæmdaleyfi fyrir heimavirkjun í landi Vesturbotns, Patreksfirði. Áætluð stærð er um 10kW, steypt inntaksmannvirki verður í Botnsá, 3m x 1,5m og 110mm plastlögn frá inntaki niður í stöðvarhús sem staðsett verður við Golfskálann. Lengd lagnar er um 1.200 m og er áformað að leggja hana samhliða vegslóða sem liggur með ánni. Virkjunin fellur því undir svokallaðar heimilisrafstöðvar til eigin nota. Framkvæmdatími næstu 2 árin. Framkvæmdin fellur ekki undir mat á umhverfisáhrifum.
Í greinargerð með umsókninni segir að starfsemi Golfklúbbs Patreksfjarðar aukist ár frá ári, en vegna skorts á orku er ekki hægt að hita upp golfskálann nema með jarðefnaeldsneyti. Með þessu er verið að vinna að því að bjarga eignum klúbbsins og um leið að nýta umhverfisvæna orku til upphitunar og framleiðslu á rafmagni til að hlaða rafmagnstæki.
Skipulags- og umhverfisráð Vesturbyggðar gerir ekki athugasemd við veitingu framkvæmdaleyfis og vísar málinu áfram til bæjarráðs.