Noregur: auðlindagjald lögfest

Mynd: IntraFish.com

Löggjöf um auðlindagjald í fiskeldi tók gildi um áramótin. Lagt verður gjald á tekjur að frádregnum rekstrarkostnaði og fjárfestingarkostnaði. Þó verða tekjur af 4000 tonna framleiðslu á ári í hverju fyrirtæki undanþegin skattlagningunni. Verulegur hluti auðlindagjaldsins rennur til sveitarfélaganna þar sem eldið er starfrækt.

Norska þingið mun ekki afgreiða löggjöf um fjárhæð auðlindagjaldsins fyrr en nú í sumar. Í tillögu ríkisstjórnarinnar var gert ráð fyrir 40% auðlindagjaldi sem að teknu tilliti til tekjuskatts af hagnaði þýðir að heildarskattlagningin yrði 62%.

Vefurinn IntraFish greindi frá því á mánudaginn í síðustu viku að DNB, den norske bank, teldi að auðlindagjaldið myndi verða 15% en ekki 40%. Það leiddi til þess að gengi hlutabréfa í fiskeldisfyrirtækjum hækkaði á mörkuðum. Til dæmis hækkaði verð á bréfum í SalMar um 3,3% fram á þriðjudag í þessari viku. Í greiningu DNB sagði að 15% auðlindagjald myndi þýða að heildarskattlagningin yrði 37% sem væri sambærilegt við það sem væri á Íslandi og í Færeyjum.

Í annarri frétt IntraFish í vikunni um málið er haft eftir Torgeir Knag Fylkesnes varaformanni SV, sósíalíska vinstriflokksins sem styður skattlagninguna að honum finnist 15% vera of lágt en of snemmt sé að fullyrði nokkuð um að hver prósentan verði að lokum.

Norska ríkisstjórnin er minnihlutastjórn og styðst á þinginu m.a. við SV til þess að hafa nægan stuðning fyrir þingmálum.

DEILA