Fulltrúar þriggja eldisfyrirtækja á Vestfjörðum eru sammála um að Ríkisendurskoðandi sé á villigötum varðandi nýtingu á lífmassa í sjó í skýrslu sinni um sjókvíaeldi, sem birt var á mánudaginn. Hann ofmeti möguleikana verulega á framleiðslu á eldislaxi.
Í skýrslunni gagnrýnir Ríkisendurskoðun ákvörðun Hafrannsóknarstofnunar sem miðar við að 1000 tonna lífmassi í sjó skili 800 tonnum af laxi. Var þessi stuðull notaður þegar leyfi voru færð úr heimild til framleiðslu yfir í heimild til lífmassa í sjó. Segir í skýrslunni að sjá megi í mælaborði fiskeldis síðastliðin 3 ár hafi stuðullinn verið nær því að vera 1,1 á móti 1 að meðaltali sem þýðir að heimild fyrir 1000 tonnum af lífmassa af laxi í sjó hafi skilað 1.100 tonna framleiðslu.
Orðrétt segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar: „Reynslan hefur sýnt að framleiðslan sé gjarnan minni en lífmassinn meðan verið er að byggja upp reynslu og þekkingu. Þegar starfsemin er komin á rekspöl getur það snúist við og framleiðslan orðið meiri en lífmassinn. Þannig sýna tölur frá norskum fiskeldisfyrirtækjum að meðaltalsstuðull sé um 1,6 á móti 1 sem þýðir hver 1.000 tonn af lífmassa sem voru framleidd gáfu af sér að meðaltali 1.600 tonn af fiski á ári. Sambærilegar tölur fyrir Ísland árin 2019‒2021 voru mjög misjafnar milli rekstraraðila sjókvíaeldis eða allt frá 0,9 til 1,3 á móti 1.“
Landssamband veiðifélaga sendi frá sér fréttatilkynningu í gær þar sem einmitt var tekið undir þessa gagnrýni Ríkisendurskoðunar og segja ákvörðun Hafrannsóknarstofnunar hafi í reynd aukið framleiðsluheimildir eldisfyrirtækjanna sem „virðist að mestu vera vegna rangra upplýsinga sem eldisfyrirtækin hafa gefið Hafrannsóknastofnun.“
Hlutfallið um 0,5 – 0,6 : 1
Þessu eru fulltrúar eldisfyrirtækjanna sem Bæjarins besta hefur rætt við ósammála. Þeim ber saman um að hlutfallið sé 0,5 – 0,6 : 1 sem þýðir að heimild til þess að ala 1000 tonn af laxi í sjó gefi að lokum 500 – 600 tonn af laxi. Það er að 1000 tonna lífmassi gefi 500-600 tonn af laxi. Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður segir að þetta sé raunin á eldi Arnarlax í Patreksfirði og Tálknafirði, hlutfallið sé 50 – 60% af lífmassanum. Sama segir Daníel Jakobsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Arctic Fish. Hlutfallið sé 60% í Dýrafirði og 50-60% í Patreksfirði og Tálknafirði.
Gauti Geirsson, framkvæmdastjóri Háafells er sammála þessu mati. Háafell hefur nýlega hafið laxeldi í Ísafjarðardjúpi svo ekki er komin reynsla á það hvað lifmassi skilar í framleiðslu en Gauti, sem er menntaður í Noregi á þessu, sviði taldi hlutfallið verða á því bili sem hinir tveir hafa nefnt.
Bæði Daníel og Gauti nefna að aðstæður á Íslandi séu ólíkar því sem gerist í Noregi og Ríkisendurskoðun vitnar til að gefi stuðulinn 1,6:1 eða að hver 1000 lífmassi í sjó skili 1.600 tonnum af laxi. Sjór á Íslandi sé kaldari sem leiði til þess að vöxtur eldisfisksins yfir vetrarmánuði sé mjög lítill. Daníel nefnir að auki að í Noregi sé heimilt að flytja lífmassaheimildina milli fjarða og eldissvæða. Þá segir Daníel að hvíldartími eldissvæða sé afgerandi þáttur og horfa þurfi yfir framleiðsluna á hverju eldissvæði yfir þriggja ára tímabil. Nýtingin geti náð hlutfallinu 1:1 á einu ári en þegar hvíldartíminn hefur verið tekinn með ásamt kaldari sjó en í Noregi verður niðurstaðan 0,5-0,6 á móti 1 sem er langt frá því sem næst í Noregi.
Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arnarlax sagðist gjarnan vilja sjá það eldisleyfi á Íslandi sem gæfi 1:1.
Miðað við þessu svör frá atvinnugreininni er Ríkisendurskoðun að ofmeta verulega framleiðsluna sem lífmassaheimild gefur, jafnvel tvöfalt meira en raunin er samkvæmt reynslu fyrirtækjanna.
-k