Ríkisendurskoðandi víkur að töfum a birtingu í Stjórnartíðindum á breytingu laga um fiskeldi árið 2019 og gildstöku þeirra í skýrslu sinni um sjókvíaeldi og telur það hafa verið alvarlegt. Orðrétt segir í skýrslunni á bls 52:
„Umrædd töf var til þess fallinn að grafa undan tiltrú almennings og annarra hagsmunaaðila á að jafnræðis og gagnsæis væri gætt af hálfu stjórnvalda. Ásýndin er sú að þau fyrirtæki sem skiluðu frummatsskýrslum milli samþykktar og gildistöku laganna hafi notið góðs af frestun birtingarinnar og fengið óeðlilegt svigrúm til að uppfylla bráðabirgða-ákvæði laganna.“
Ríkisendurskoðandi nafngreinir ekki embættismanninn en fjölmiðlar voru fljótir að upplýsa að um var að ræða Jóhann Guðmundsson, skrifstofustjóra.
Að frumkvæði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis rannsakaði héraðssaksóknari embættisfærsluna.
Í bréfi héraðssaksóknara til Jóhanns, tæpum tveimur árum seinna, segir að rannsókn hafi verið hætt. Ekki fáist séð að athafnir hans hafi hallað réttindum einstakra manna eða lögaðila eða hins opinbera. „Frekari rannsókn er að mati embættis héraðssaksóknara ekki líkleg eða til þess fallin að sýna fram á sekt yðar, eða upplýsa um málið frekar“.
Íþyngjandi lagasetning sem gæti skapað skaðabótaskyldu
Fram kemur í bréfinu að Jóhann hafi gefið þá skýringu að hann og fleiri starfsmenn ráðuneytisins hefðu talið að lögin og þær íþyngjandi breytingar sem þau höfðu í för með sér á svo skömmum tíma gætu skapað íslenska ríkinu skaðabótaábyrgð gagnvart ýmsum fiskeldisfyrirtækjum sem þegar hefðu hafið umsóknarferli samkvæmt eldri lögum. Þess vegna hefði verið óskað eftir frestun á birtingu laganna um skamman tíma. „Í framburðum annarra vitna kom fram að ýmsar umræður hefðu verið um það meðal starfsmanna ráðuneytisins að fyrirséð væri að umrædd lagabreyting kynni að hafa þau áhrif að fyrirtækin hefðu uppi skaðabótkröfu á hendur íslenska ríkinu.“ Tilgreind eru tvö minnisblöð starfsmanns ráðuneytisins þar sem greind eru áhrif af seinkun á birtingu laganna . Þar kemur fram að einungis fyrirtæki sem hefðu hafið ferli við gerð frummatsskýrslu löngu fyrir samþykkt laganna hafi getað haldið ferlinu áfram samkvæmt eldri lögum.
Ekki hallað réttindum neins – ekki misnotað stöðu
Niðurstaða héraðssaksóknara er að „með hliðsjón af framangreindu og þeim gögnum, upplýsingum og framburðum sem hefur verið aflað við rannsókn málsins þykir, á þessu stigi málsins, ekki hafa verið sýnt framá að þér hafið misnotað stöðu yðar öðrum eða yður sjálfum til ávinnings. Þá fæst ekki séð að athafnir yðar hafi hallað réttindum einstakra manna eða lögaðila né hins opinbera, sbr. m.a. framangreint minnisblað.“
Ríkisendurskoðandi þegir um þetta
Athygli vekur að Ríkisendurskoðandi þegir um þessa afgerandi niðurstöðu rannsóknar héraðsaksóknara og velur þess í stað að gagnrýna frestun á birtingu laganna og segir í skýrslu sinni:
„Ásýndin er sú að þau fyrirtæki sem skiluðu frummatsskýrslum milli samþykktar og gildistöku laganna hafi notið góðs af frestun birtingarinnar og fengið óeðlilegt svigrúm til að uppfylla bráðabirgðaákvæði laganna.“
Þessu ummæli í skýrslunni eru þvert á formlega niðurstöðu héraðssaksóknara, sem segir berum orðum að enginn hafi haft ávinning af frestuninni, hvorki fyrirtækin né embættismaðurinn né nokkur annar.
Þá greinir Ríkisendurskoðandi frá niðurstöðunni á þann hátt að Jóhann Guðmundsson hefur ritað honum bréf dags 13. febrúar og gerir alvarlegar athugasemdir við lýsingu hans á niðurstöðu héraðssaksóknara og segir hann ekki hafa gætt þess að lýsa henni með réttum hætti.
Jóhann segir í bréfi sínu að í tilkynningu héraðssaksóknara frá 21. september 2022 um lok málsins segi að ekki hafi verið sýnt fram að hann hafi notað stöðu sína sér eða öðrum til ávinnings. Hins vegar segir í skýrslu Ríkisendurskoðanda að rannsóknin hafi ekki leitt í ljós að starfsmaðurinn hafi ásett sér að misnota stöðu sína.
Á þessu sér verulegur munur. Héraðssaksóknari segir að ekki hafi verið sýnt fram að hann hafi misnotað stöðu sína. Ríkissaksóknari segir hins vegar að að rannsóknin hafi ekki leitt í ljós að hann hefði ásett sér að misnota stöðu sína. Í því felist að Ríkisendurskoðandi ýjar að því að Jóhann hafi misnotað stöðu sína þótt hann hafi ekki ætlað sér það. Þessi ummæli í skýrslunni hafi litað fjölmiðlaumfjöllunina og valdið Jóhanni tjóni og segist hann hafa bótarétt sinn til athugunar.
Lögin réttilega birt
Þá segir í bréfi Jóhanns til Ríkisendurskoðanda að það það vekji athygli að ekki sé getið þess í umfjöllun um seinkun á birtingu laganna að dómsmálaráðhera hafi í svari við fyrirspurn á Alþingi um þetta mál á þingskjali 490 á 151. löggjafarþingi sagt að „Farið var eftir framangreindu verklagi við birtingu þeirra laga sem vísað er til í fyrirspurninni og lögin réttilega birt í Stjórnartíðindum.“
Í bréfi héraðssaksóknara er rakinn ferill frestunarinnar. Þar kemur fram að lögin voru samþykkt á Alþingi 20. júní 2019 og undirrituð 1. júlí af forseta Íslands. Þá voru lögin send til Stjórnartíðinda, og þar sem mörg lög biðu birtingar hafi legið fyrir að birting væri ekki fyrirhugð fyrr en 14. eða 15. júlí. Beiðni um frestun er lögð fram 9. júlí og þá óskað eftir frestun til 18. júlí. Beiðnin var því um frestun um 3 -4 daga.
Matvælaráðuneytið hafði frest í mánuð frá 21. september 2022 til þess áfrýja niðurstöðu héraðssaksóknara til embættis ríkissaksóknara en gerði það ekki.
Röng mynd dregin upp
Jóhann Guðmundsson segir í bréfi sínu til Ríkisendurskoðanda að þar sem grunsemdir ráðuneytisins í sinn garð hafi ekki átt sér stoð fái hann ekki séð hvaða tilgangi það þjóni í skýrslunni um sjókvíaeldi að draga fram niðurfellt lögreglumál. Segir Jóhann að lýsing virðist að mörgu leyti byggð á einhliða frásögn Matvælaráðuneytisins og blaðaumfjöllun og virðist nýtt til þess að álykta um alvarleika tafa á birtingu laganna. Með því að sleppa alveg að segja frá því að verið var að gæta hagsmunda ríkisins sé Ríkisendurskoðandi að gefa þá mynd að sérstaklega hafi verið gætt hagsmuna tiltekinna fiskeldisfyrirtækja.
Frásögnin af tildrögum þess að frestað var um 3-4 daga að birta lögin í skýrslu Ríkisendurskoðanda um sjókvíaeldi er töluvert á annan veg en fram kemur í greinargerð héraðssaksóknara og í bréfi Jóhanns Guðmundssonar til Ríkisendurskoðanda. Frávikin eru veruleg og setja óhjákvæmilega þá kröfu á Ríkisendurskoðanda að hann skýri frekar efnistökin í skýrslu sinni og að hverju hann stefni með henni. Eins verður Matvælaráðherra, sem óskaði eftir skýrslunni að gera grein fyrir framgöngu sinni í málinu. Niðurstaða héraðssaksóknara hlýtur að vega þungt í mati á atburðarrásinni um gildistöku laganna sumarið 2019. Það var verið að setja íþyngjandi löggjöf fyrir eldisfyrirtækin, sem breytti leikreglunum snögglega. Slíkt getur haft fjárhagslegar afleiðingar fyrir atvinnufyrirtækin í för með sér og eðlilegt að embættismenn ráðuneytisins skoði hvort við það myndist skaðabótaskylda á ríkið. Ríkisendurskoðandi víkur að þessu engu orði heldur þvert á móti gerir það tortryggilegt. Það verður tilefni til þess að efast um markmið Ríkisendurskoðanda og Matvælaráðherra með skýrslunni. Það er miður. Fiskeldi er vaxandi atvinnugrein sem mun leggja mikið af mörkum til þess að standa undir bættum lífskjörum landsmanna næsta áratuginn og jafnvel lengur. Bætt stjórnsýsla er nauðsynleg og eðlilegt að betrumbæta misfellur sem hafa komið í ljós en enginn ávinningur er að því að hafa embættismenn fyrir rangri sök, nema kannski fyrir þá sem eru mótfallnir sjókvíaeldi og vilja koma því fyrir kattarnef.
-k