Skýrsla Ríkisendurskoðanda um sjókvíaeldi var rædd á fundi bæjarráðs Bolungavíkur í vikunni. Í bókun bæjarráðsins er lögð áhersla á að skýrslan sé ekki áfellisdómur yfir fiskeldi sem atvinngrein og efla þurfi stofnanir sem koma að eldinu. Þá vill bæjarráðið að störf innan þessara stofnana verði í nærumhverfinu.
„Bæjarráð Bolungarvíkur tekur undir fjölmörg atriði sem fram koma í skýrslu Ríkisendurskoðunar um fiskeldi. Rétt er að taka fram að skýrslan er ekki áfellisdómur yfir fiskeldi sem atvinnugrein eða þá uppbyggingu sem átt hefur sér
stað á Vestfjörðum.
Mikilvægt er að styrkja stjórnsýsluna á bak við fiskeldið og efla þær stofnanir sem sinna skipulagi og eftirliti. Ennfremur er nauðsynlegt að störf og þekking innan þessara stofnana verði til í nærumhverfi fiskeldis.
Bæjarráð Bolungarvíkur bendir jafnframt á að til að styðja við þróun greinarinnar er mikilvægt að tekjur af fiskeldi renni til sveitarfélaga í nærumhverfi þeirra. Þannig er hægt að styrkja greinina í sátt við samfélag og náttúru.“