Blæði- og kælitankar á vesturleið

Í gærmorgun var tveimur risatönkum skipað um borð í danskt fóðurflutningaskip á Akranesi sem flytja mun þá til Bolungarvíkur.

Það eru starfsmenn Skagans 3X á Akranesi sem eru að ljúka smíði tveggja tanka fyrir laxasláturhús Arctic Fish er nú rís á hafnarkantinum í Bolungarvík. Í morgun voru tankarnir fluttir frá verksmiðjudyrum Skagans 3X á Akranesi um borð í danska fóðurflutningaskipið Vermland sem flytur þá til Bolungarvíkur.

Að sögn Ragnars Inga Kristjánssonar vélahönnuðar hjá Skaganum 3X á Ísafirði er um að ræða tvo 100 m3 RoteX skrúfutanka. Annars vegar er það RoteX blæðitankur sem tryggir jafna blæðingu fisksins eftir slátrun og hins vegar RoteX tankur sem ofurkælir fiskinn með SUB-CHILLING™ tækni þeirri sem starfsmenn Skagans 3X hafa þróað á undanförnum árum.

Tankarnir eru þeir stærstu sem fyrirtækið hefur framleitt til þessa og afkasta þeir um 30 tonnum á klukkustund. Tankarnir sjálfir vega um 23 tonn hvor og er stærð þeirra slík að aðeins fyrrum húsnæði skipasmíðastöðvarinnar Þorgeirs & Ellerts gat hýst smíðina.

SUB-CHILLING™ tæknin ryður sér mjög til rúms í fiskvinnslu. Með henni gefst kostur á að snöggkæla  og pakka fiskinn  í -1°C án þess að hann frjósi. Með því lengist talsvert geymsluþol afurðarinnar, engan ís þarf til flutningsins sem um leið lækkar verulega flutningskostnað.

Vermland lagði úr höfn eftir hádegið í dag, en sökum veðurs og slæmrar veðurspár hélt skipið til Hafnarfjarðar og mun bíða af sér veðrið þar. Áætluð koma til Bolungarvíkur er á mánudaginn.

Starfsmenn Skagans 3X munu svo hefjast handa við uppsetningu á RoteX tönkunum og ýmsum öðrum búnaði, bæði frá Skaganum 3X og Baader í Þýskalandi.

Myndir:aðsendar.

DEILA