Guðfinna Hreiðarsdóttir, Ísafirði, fulltrúi í svæðisráði um strandsvæðaskipulag fyrir Vestfirði segir að ástæða þess að svæðisráðið hafi lagt til að gert verði framvegis áhættumat siglinga vera þá að í ljós hafi komið að í leyfisveitingaferlinu fyrir eldiskvíar hingað til hafi þess ekki verið gætt nægjanlega vel að reglum væri fylgt eftir og komu athugasemdir frá Samgöngustofa, Vegagerðinni og Landhelgisgæslunni þar að lútandi.
Vísar Guðfinna til þess að Ísland er aðili að Alþjóðasiglingamálastofnuninni og skuldbundið til að merkja með ákveðnum hætti öruggar siglingaleiðir og að færa þær upplýsingar inn á sjókort samkvæmt alþjóðlegum stöðlum. Jafnframt hefur Ísland gengist undir að taka skuli mið af alþjóðlegum tilmælum og viðmiðunarreglum þegar sett er upp leiðsögukerfi fyrir sjófarendur.
Í kjölfar viðbótarumsagna Vegagerðar og Samgöngustofu hafi innviðaráðherra sett á fót á starfshóp um öryggi siglinga. Hann fékk það hlutverk að bregðast við þeim atriðum sem dregin voru fram í umsögnum Samgöngustofu og Vegagerðarinnar og varða áhrif einstaka reiti fyrir staðbundna nýtingu á öryggi siglinga. Hann átti jafnframt að koma með ábendingar um breyttar útfærslu í auglýstri tillögu strandsvæðisskipulags eða koma með tillögur um viðunandi mótvægisaðgerðir til að tryggja öryggi siglinga og viðbrögð svæðisráðs við athugasemdum Samgöngustofu, Vegagerðarinnar og Landhelgisgæslunnar tóku mið af vinnu starfshópsins.
Voru búin að senda inn umsögn án athugasemda
Guðfinna var að fengnu þessu svari innt eftir því hvort svæðisráðið teldi umsagnarferli umhverfismats fyrir eldi vera ófullnægjandi í ljósi þess að þessar stofnanir hafa fengið til umsagnar tillögu að mati á umhverfisáhrifum fyrir eldi þar sem fyrirhuguð staðsetning kvíanna kemur fram. Þær hafa það hlutverk að gæta einmitt að alþjóðlegum reglum og stöðlum um siglingaöryggi hefðu þá átt að vekja athygli á annmörkum ef einhverjir væri.
Í svari Guðfinnu vísar hún á umsögn/umsagnaraðila nr. 46 í tillögu svæðisráðs til ráðherra um svæðisskipulag og vitnar í svartexta/viðbrögð svæðisráðsins við því sem þar kemur fram „Að mati svæðisráðs hefur vinna við gerð strandsvæðisskipulags dregið fram að ekki hefur verið gætt nægilega að öryggi siglinga við veitingu leyfa fyrir fiskeldi. Það er nauðsynlegt að allir aðilar sem koma að leyfisveitingaferli geri bragarbót þar á.“ Það er nóg að skoða fyrirliggjandi matsáætlanir, frummatsskýrslur og umhverfismöt til að sjá hvernig þessu hefur háttað hingað til. Í einhverjum tilfellum hafa verið veitt leyfi til fiskeldis inn á hvítum ljósgeisla vita sem er óásættanlegt fyrir siglingaöryggi á svæðinu. Það er því augljóst að breyta þarf verklagi við leyfisveitingar til að koma í veg fyrir svona gerist eða annað það er stefnt getur öryggi sjófarenda í hættu.
Aðalsteinn Óskarsson, Ísafirði er einnig fulltrúi í svæðisráði og sagðist hann taka undir svör Guðfinnu Hreiðarsdóttur.