Mánuðurinn góa hefst nú sunnudag frá 18. til 24. febrúar, en 8. til 14. febrúar í gamla stíl fyrir 1700.
Nafnið, góa eða gói, er þekkt úr elstu heimildum og afbrigði þess í öðrum norrænum tungum. Gói er persónugerð sem vetrarvættur í gömlum sögnum, dóttir Þorra.
Orðið góiblót bendir til mannfagnaðar seint að vetri að fornu en um hann er ekkert vitað með vissu. Ljóst er hinsvegar af heimildum frá öndverðri 18. öld að fagna átti góu á svipaðan hátt og þorra. Skyldi það fremur vera húsbóndinn en húsfreyjan, en víst er að dagurinn var eignaður húsfreyjunni. Heimildir geta um tilhald í mat á síðari öldum en hvergi á við þorrakomu. Kann þar að ráða nokkru að góukoma lendir oftast á langaföstu.
Nokkuð var ort um Góu á 17. – 19. öld sem dóttur Þorra eða eiginkonu. Var þá stundum reynt í gamni að skjalla hana til að bæta veður. Svipaður kann að vera tilgangur þess góukomusiðar á norðaustanverðu landinu að Góu var færður rauður ullarlagður.
Heitið konudagur er kunnugt frá miðri 19. öld og er nú útbreitt. Sá siður að eiginmenn gefi konum sínum blóm á konudaginn hófst á sjötta áratug 20. aldar.
Í almennri þjóðtrú skipti góuveðrið máli. Átti sumarið að verða gott ef góa væri stormasöm og veður vont fyrstu góudaga.
Þessi vísa var húsgangur í Önundarfirði fram á 20. öld.
Góa kemur með gæðin sín
gefst þá nógur hitinn.
Fáir sakna þorri þín
þú hefur verið skitinn.
Heimild: Saga daganna eftir Árna Björnsson.
Ljósm.: Víðir Björnsson.
.
Í Eyrarbakkafjöru.
Skráð af Menningar-Bakki.