Minning: Sigurður J. Hafberg

Við norðanverðan Önundarfjörð er kauptúnið Flateyri á samnefndri eyri.  Þarna hófst verslun 1792 og stýrði henni Daníel Steenback.  Eftirmaður hans var Friðrik Svendsen, mikill athafnamaður.  Eftir lát hans keypti Torfi Halldórsson eignir hans og hefur Torfi verið nefndur faðir Flateyrar.  Dóttir hans var Guðrún, móðuramma þeirra mætu systkina Einars heitins Odds og Jóhönnu Kristjánsbarna.

               Hinn 26. október 1995 var sá skelfilegi hörmungaratburður, að snjóflóð hljóp á plássið.  20 manns fórust, en 25 var bjargað.

               Þegar í stað hófst feikimikil endurreisn hins blómlega byggðakjarna.  Í því verki voru fremst meðal jafningja sæmdarhjónin Sigurður Hafberg og Þorbjörg Sigurþórsdóttir.  Sigurður var lengi skipverji á togaranum Gylli Ís., sem gerður var út frá Flateyri. Síðar stofnaði hann myndarlega til viðtöku ferðafólks, bjó því náttból, rak gildaskála, lánaði róðrarbáta og sparaði hvorki, tíma, fé né fyrirhöfn til þess að gera gestum heimsókn til Flateyar ánægjusamlega.

               Sigurður var raunar einstakur maður.  Vinátta hans var svo traust við þá, sem hann tók tryggð, að kalla mátti öruggan skjólvegg.  Hann var aldrei bældur, heldur frjáls og óbundinn í framkomu og máli – og snöggur að taka við sér í ávarpi.  Gæddur var hann ríkulegri spauggreind, ávallt glaðhittinn og flínk hermikráka.

               Þau hjónin, Sigurður og Þorbjörg, báru hlýjan hug til sóknarkirkjunnar, sem teiknuð var af Einari Erlendssyni, en dr. Jón Helgason biskup vígði hinn 26. júlí 1936.  Þorbjörg sat í sóknarnefnd og var til mikilla þrifa þar.  Fyrir forgöngu hins dugandi safnaðarformanns, Steinars Guðmundssonar, var afráðið að byggja við kirkjuna fatahengi og snyrtingu sitt hvorum megin við forkirkju, en skrifstofu, fundasal, snyrtingu og geymslu að kórbaki.  Verktaki var heiðursmaðurinn Eiríkur Guðmundsson í Sporhamri h.f. á Flateyri.

               Á næstliðinni öld þótti ýmsum sóknarprestar Önfirðinga heldur pokar.  En þar í móti kom, að Flateyringar áttu því láni að fagna undir aldamótin, að héraðslæknirinn var nokkuð jafnvígur á lækniskúnstir sínar og guðsþjónustur í kirkjunni.

               Flateyringar voru kirkjuræknir mjög.  Breytti þá engu, hvort um var að ræða almenna guðsþjónustu eða barnasamkomu.  Hreppsnefndarmenn og forkólfar í atvinnulifinu sóttu ekki síður barnamessur af kappi af því að þeir voru svo spenntir að fylgjast með framhaldssögunni.  Eftirsóttasti starfi í barnaguðsþjónustunni var embætti brjóstsykursstjóra.  Skyldi hver kirkjugestur fá einn mola að bæta sér í munni.  Eftirminnilegar brjóstsykursstjóri er fallegur glókollur, sonur þeirra Sigurðar og Þorbjargar, sem nú er orðinn sjávarútvegsfræðingur.  Honum kippti í kynið, því að undir hans stjórn fengu menn tvo mola áður héldu heim, glaðir í Guði sínum.

               Við felum svo Guði á vald okkar kæra vin og bróður og biðjum honum blessunar þar sem nýr himinn og ný jörð leysa af hólmi hið forgengilega, af því að hið fyrra er farið – þar sem hvorki harmur né kvöl né vein er framar til.  Megi okkur öllum hlotnast sú náð, sem fyrirheit Drottins boða okkur, að við fáum að sameinast á ný í dýrð og fögnuði upprisunnar fyrir heilaga trú. “Moldin hverfur aftur til jarðarinnar, þar sem hún áður var, en andinn fer til Guðs sem gaf hann.”  Guð blessi minningu drengsins góða, Sigurðar Jóhanns Hafberg.  Hann verndi og styrki ástvini hans alla.  Í Jesú nafni.

Sr Gunnar Björnsson

DEILA