Árni Friðriksson kannar ástand loðnustofnsins

Árni Friðriksson HF-200

Rannsóknaskipið Árni Friðriksson hélt úr Hafnarfjarðarhöfn í morgun til loðnukönnunar. Könnunin er gerð í samstarfi við útgerðir uppsjávarveiðiskipa sem greiða fyrir þann aukakostnað Hafrannsóknastofnunar sem af henni hlýst.

Markmiðið er að safna upplýsingum um göngur og dreifingu loðnustofnsins austan og norðan við land. Slíkar upplýsingar hjálpa til að ákveða, hvenær það sé líklegast til árangurs að fara til mælinga á stærð loðnustofnsins og ná sem markverðustu mælingu á honum. Eins verði hægt að ákvarða það magn sem komið er inn á loðnumiðin og mögulega það magn sem kann að ganga snemma inn í hlýsjóinn suðaustanlands og tapast af mælisvæðinu, ef til þess kæmi.

Gert er ráð fyrir að þessi könnun geti varað í 1-2 vikur áður en farið verður til hefðbundinna stofnmælinga á báðum skipum Hafrannsóknastofnunar. Þær mælingar munu svo liggja til grundvallar að lokaveiðiráðgjöf á loðnu á þessari vertíð.

DEILA