Föstudaginn 2. Desember mun Arndís Dögg Jónsdóttir flytja erindið „Samfélagsleg þátttaka á Vestfjörðu“ í Vísindaporti.
Í erindinu verður skoðuð samfélagsleg þátttaka íbúa á Vestfjörðum. Hvernig einstaklingar leggja sitt af mörkum í að halda menningarlegum fjölbreytileika í litlum byggðum og mikilvægi einstaklingsframtaks til að halda þar uppi virku félagsstarfi.
Efnið er hluti af rannsókn sem framkvæmd var sumarið 2022 og ber nafnið The full story: Dynamic cultures of the Westfjords. Verkefnið er samstarfsverkefni milli Rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Ströndum. Þjóðfræðistofu og Fine foods Íslandica ehf. og var styrkt af Nýsköpunarsjóði Námsmanna.
Markmiðið var að skoða lífssýn Vestfirðinga og þeirra sem þar búa. Hvernig svæðið hefur áhrif á þá sýn sem fólkið hefur. Í erindinu verður sagt frá verkefninu og rýnt í sameiginlegt þema í þeim viðtölum sem tekin voru. Það er hversu gífurlega miklu máli einstaklingsframtak og samfélagsþátttaka skiptir í smærri bæjarfélögum.
Þetta er málefni sem var mikið rætt á einn eða annan veg í hverju viðtali. Nauðsynlegt er fyrir íbúa að taka þátt í dagskrá sem í boði er svo mögulegt sé að halda úti virku félags- og menningarstarfi innan bæja og byggðarlaga.
Framlag einstaklingsins til menningar- og félagsmála innan samfélagsins getur haft jákvæð áhrif á hvernig einstaklingur upplifir eigið virði í samfélaginu sem stuðlar að aukinni virkni sem aftur eflir samfélagið sem þau tilheyra.
Arndís Dögg er menntaður leiðsögumaður, þjóðfræðingur og upplýsingafræðingur frá Háskóla Íslands. Hún ólst upp á Suðureyri og Ísafirði en flutti af Vestfjörðum um tvítugt.
Seinustu árin hefur hún að mestu starfað í ferðaþjónustu en árið 2020 flutti hún til Bolungarvíkur og hefur síðan þá lagt stund á meistaranám í upplýsingafræði.
Svava Þorsteinsdóttir er nemi í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands. Hún ólst upp í Reykjavík þar sem hún býr enn í dag. Í vinnu sinni reynir hún að ná ljóðrænni nálgun á það viðfangsefni sem hún vinnur með. Hún lætur áherslu liggja á því sem oft er hulið og því sem liggur á milli hluta.
Vísindaportið er opið öllum og hefst stundvíslega klukkan 12:10 í kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða á 2. hæð. Erindið fer fram á íslensku.