Uppskrift vikunnar – hafraklattar

Það má vel ímynda sér að margir séu að huga að jólabakstri. Ég verð nú að viðurkenna að ég er svo sannarlega ekki ein af þeim.

En fyrir mörgum árum mætti samstarfskona mína með þessa hafraklatta í vinnuna og allt í einu fann ég smákökur sem mér þótti góðar. Þessi samstarfskona var svo ánægð með að hafa hitt naglann á höfuðið að daginn eftir færði hún mér heilt box af klöttunum ásamt  uppskriftinni. Takk Elín.

Uppskrift:

500 gr smjör (lint)

100 gr sykur/hrásykur

300 gr púðursykur

4 tsk vanillusykur

4 egg

350 gr hveiti/spelt

2 tsk matarsódi

1 tsk salt

1 tsk kanill

550 gr haframjöl

100 gr. smátt skorið suðusúkkulaði (má auka, minnka eða sleppa)

1 bolli rúsínur (má auka, minnka, sleppa)

Aðferð:

Smjör, sykur og púðursykur þeytt þar til létt og ljóst. Eggjum bætt út í einu og einu í senn ásamt vanillusykri. Þurrefnum bætt út í, hveiti, matarsóda, salti og kanil, og í lokin er haframjöli, rúsínum og súkkulaði bætt við.

Á þessu stigi er deigið mjög blautt. Búið til kúlur í höndunum, ca. á stærð við tómata/plómur, setjið á plötu og fletjið lítillega út. Athugið að klattarnir stækka í ofninum. Hef alveg óvart búið til risaklatta.

Bakað í miðjum ofni við 200° í ca 8-10 mínútur. Mikilvægt að baka ekki klattana of lengi, þeir eiga rétt að vera ljósbrúnir.

Verði ykkur að góðu.

Halla Lúthersdóttir.

DEILA