Pétur Sigurðsson fæddist á Ísafirði 18. desember 1931.
Foreldrar hans voru Sigurður Pétursson, vélstjóri á Ísafirði, og Gróa Bjarney Salómonsdóttir húsfreyja.
Eftirlifandi eiginkona Péturs er Hjördís, fv. tryggingafulltrúi hjá sýslumannsembættinu á Ísafirði, dóttir Hjartar Sturlaugssonar og Arndísar Jónasdóttur, bænda í Fagrahvammi við Skutulsfjörð.
Börn Péturs og Hjördísar: Sigurður, sagnfræðingur og framhaldsskólakennari, og Edda barnakennari.
Pétur ólst upp á Ísafirði, stundaði sjómennsku frá unglingsárum og lauk prófi frá Vélskóla Íslands 1960. Að því loknu starfaði hann hjá Rafmagnsveitum ríkisins á Vestfjörðum. Frá 1970 var hann starfsmaður verkalýðsfélaganna á Ísafirði og Alþýðusambands Vestfjarða og framkvæmdastjóri Alþýðuhússins og Ísafjarðarbíós 1970-87.
Pétur var forystumaður í íslenskri verkalýðshreyfingu um hálfrar aldar skeið, formaður Félags járniðnaðarmanna á Ísafirði 1962-66 og 1968-69, varaformaður verkalýðsfélagsins Baldurs 1969-72 og síðan formaður þess 1974-2002, sat í stjórn Alþýðusambands Vestfjarða (ASV) frá 1964 og var forseti þess frá 1970. Með stofnun Verkalýðsfélags Vestfirðinga árið 2002 leysti félagið af hólmi hlutverk ASV og var Pétur formaður þess félags til 2007.
Pétur sat í stjórn Verkamannasambands Íslands, síðar Starfsgreinasambandsins og í miðstjórn ASÍ um skeið og var formaður stjórnar atvinnuleysistryggingasjóðs. Hann starfaði í Félagi ungra jafnaðarmanna á Ísafirði og síðar Alþýðuflokknum, sat í bæjarstjórn Ísafjarðar og var varaþingmaður Alþýðuflokksins í Vestfjarðakjördæmi 1991-95.
Pétur var formaður knattspyrnufélagsins Vestra á Ísafirði 1954-77 og lék knattspyrnu með félaginu og úrvalsliði ÍBÍ í mörg ár.
Pétur lést 14. október 2018.
Skráð af Menningar – Staður.