Merkir Íslendingar – J. Friðrik Jóhannsson

Friðrik Jóhannsson var fæddur þann 11. desember 1952 á Ísafirði.

Friðrik var elstur sjö barna hjónanna Jóhanns Sigurðar Hinriks Guðmundssonar og Ásdísar Ásgeirsdóttur.

Friðrik ólst upp hjá móðursystur sinni, Sigríði Tómasdóttur, og eiginmanni hennar, Jakobi Guðmundi Hagalínssyni.

Fyrstu tíu árin bjuggu þau á bænum Sútarabúðum í Grunnavík á Jökulfjörðum og brugðu þau búi haustið 1962 þegar þau flytjast til Ísafjarðar og bjuggu í Ásbyrgi fyrst um sinn en lengst af bjuggu þau á Öldunni (Fjarðarstræti 38).

Friðrik kom víða við og starfaði fyrstu árin í lögreglunni á Ísafirði en hann var tekinn inn á undanþágu 18 ára sökum þess að hann var bæði líkamlega sterkur og hafði góð tök á íslensku sem kom sér einkar vel í skýrslugerðinni.

Friðrik fór í Lögregluskólann og tók rannsóknarlögreglumanninn í skólanum.

Eftir nokkur ár í lögreglunni söðlaði Friðrik um og var mikið við akstur samhliða sjómennsku en fljótlega fór sjórinn að kalla meira á og var hann mest af á sjó eftir miðjan níunda áratuginn. Samhliða sjómennskunni tók hann skipstjórnarréttindi við Menntaskólann á Ísafirði sem og vélavarðaréttindi og starfaði sem skipstjóri og stýrimaður eftir að því námi lauk.

Friðrik var liðtækur handverksmaður og átti hann og rak bátasmiðju í fimm ár ásamt því að þau ár sem hann var á sjónum kom hann að viðhaldi og viðgerðum á þeim bátum sem hann kom að.

Það var svo upp úr aldamótum að Friðrik dreif sig í leiðsögunám við Háskólann að Hólum. Eftir útskrift fór hann aftur á sjóinn og þá með túrista á sumrin samhliða leiðsögn um Jökulfirði og þá helst um Grunnavík sem átti alltaf mikið rými í hans hjarta. Samhliða ferðaþjónustunni var hann við veiðar á veturna.

Síðustu árin fluttist Friðrik suður og bjó í Hafnarfirði og vann við akstur, bæði á hópferðabílum sem og að eiga og halda úti eigin leigubíl.

Friðrik Jóhannsson lést þann 21. maí 2018.

Útför Friðriks fór fram í Digraneskirkju þann 1. júní 2018

Grunnavík í Jökulfjörðum.

DEILA