Jóhann Jónasson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Samey Robotics ehf í Garðabæ og mun hann taka við starfinu í byrjun næsta árs.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Samey Robotics.
Jóhann er reyndur stjórnandi með áratuga reynslu úr tæknigeiranum á Íslandi og í uppbyggingu tæknifyrirtækja. Jóhann var einn af stofnendum 3X Technology á Ísafirði og tók síðan þátt í uppbyggingu Deilis Tækniþjónustu ehf í Mosfellsbæ. Jóhann er menntaður Iðnrekstrarfræðingur og með meistarapróf í viðskiptafræði og stjórnun frá HR.
Samey Robotics hefur í yfir 33 ár verið leiðandi í sjálfvirknivæðingu íslensks iðnaðar og brautryðjandi í notkun þjarka í sjálfvirkni. Samey Robotics hefur með þessum lausnum aðstoðað fjölda fyrirtækja til lands og sjávar á farsælan og árangursríkan hátt við að auka framleiðni og rekstrarhagkvæmni.
Haraldur Þorkelsson hefur verið framkvæmdastóri Samey Robotics síðan 2012 og mun hann taka við nýju starfi rannsóknar- og þróunarstjóra félagsins við uppbyggingu nýrra sjálfvirknilausna fyrir viðskiptavini félagsins.
„Við horfum bjartsýn fram á veginn enda er pantanastaða félagsins með besta móti, með yfir 60 róbotarkerfi í pöntun“, segir Haraldur.
Samey Robotics hefur eflst og þróast undir forystu Haraldar Þorkelssonar og öflugu 30 manna starfsliði sem eru sérfræðingar í hönnun, þróun, framleiðslu og þjónustu sjálfvirknilausna fyrir matvælaiðnað. Félagið starfrækir einnig verslun sem selur fjölbreyttan raftæknibúnað til íslenskra iðn- og tæknifyrirtækja. Á sjötta hundrað verksmiðjur og vinnslur í 25 löndum starfa í dag með kerfum frá Samey Robotics.
Nýverið stofnaði félagið Samey Robotics AS í Noregi þar sem áhersla verður lögð á söluráðgjöf og þjónustu til viðskiptavina félagsins í laxavinnslu.
„Samey Robotics er vel rekið félag og ört vaxandi, sannkölluð sjálfvirknimiðstöð og munum við í sameiningu vinna áfram í að vera eftirsóknarverður vinnustaður með öflugan mannauð sem vinnur að spennandi verkefnum. Við erum talsmenn stöðugra umbóta í verkferlum okkar viðskiptavina með því að afhenda tæknilausnir sem auka framleiðni og rekstrarhagkvæmni og bæta um leið gæði afurðanna, á þann hátt sköpum við aukið virði“ segir Jóhann.
Það eru mikil tækifæri til vaxtar á þeim mörkuðum sem við erum á td. Í laxeldinu, og í hvítfiskinum, auk þess höfum við uppá að bjóða fjölbreyttar lausnir fyrir annan iðnað á íslandi svo sem til rafverktaka og aðra sem vinna að sjálfvirknivæðingu bætir Jóhann við.
Samey Robotics er í jafnri eigu LVG Holding, félags Kristjáns Karls Aðalsteinssonar og Vygandas Srebalius og Sjávarsýnar ehf félag sem er í eigu Bjarna Ármannssonar, og er hann einnig Stjórnarformaður Samey Robotics.