Ísafjarðarhöfn: síðasti dagur Mugga

Gamlir og nýir vinnufélagar heimsóttu hafnarstjórann fráfarandi. Mynd: Ísafjarðarhöfn.

Í dag lætur Guðmundur M. Kristjánsson af störfum sem hafnarstjóri Ísafjarðarhafna en hann hefur gengt embættinu í 20 ár. Síðasti formlegi vinnudagur var í gær og kom fjöldi fólks í heimsókn til að kveðja hann .

„Ég kveð þennan vinnustað mjög sáttur og óska Hilmari Lyngmo alls velfarnaðar í starfi hafnarstjóra.“ segir Guðmundur.

Aðspurður hvað væri framundan sagði Guðmundur að það væri kannski fyrst að átta sig á nýjum veruleika, „en það er ekkert í pípunum. Það væri gott að fara í ferðalag og þurfa ekki að hugsa til þess að fara heim á einhverjum tilsettum tíma.“

Hann segir að það séu margir staðir sem hann langi til að heimsækja og nefnir Suður Ameríku sérstaklega. „Ég bjó í 3 ár í Suður Ameríku, á Falklandseyjum, Chile og í Argentínu.“ Þá bjó Guðmundur einnig í 3 ár á Capo Verde, eyjum sem eru undan Afríku, 1000 mílum fyrir sunnan Canarí eyjar og loks 3ár í Malasíu í Austur Asíu og kom til Ísafjarðar þaðan fyrir tuttugu árum.

DEILA