Uppskrift vikunnar – Steiktur karfi

Karfi er herramannsmatur og þessi uppskrift er kannski ekki alveg hefðbundin en að minnsta kosti að mínu mati mjög góð. Endilega að prufa sig bara áfram eins og með allar uppskriftir. Galdurinn með karfa er að það má alls ekki elda hann of mikið.

Innihald:

1 kg beinlaus karfaflök
olíu til steikingar
15 til 20 vínber, skorin í tvennt og kjarninn hreinsaður úr þeim
100 gr gráðost
60 gr valhnetur
3 dl rjóma
1 lítinn og fínt skorinn lauk
Salt og pipar

Aðferð:

Karfaflökin eru þerruð og þeim velt upp úr hveiti. Þau eru síðan steikt á hvorri hlið í tvær til þrjár mínútur og krydduð með salti og pipar. Flökin eru síðan tekin af pönnunni og sett til hliðar. Fínt skorinn laukurinn er settur á pönnuna ásamt valhentunum og látinn taka svolítinn lit. Þá er rjómanum hellt út á pönnuna og gráðosturinn mulinn út í. Sósan er látin malla þar til osturinn er bráðinn og bragðbætt með salti og pipar. Loks eru karfaflökin sett út í smá stund og rétturinn síðan borinn fram. Gott er að hafa kartöflur eða hrísgrjón með karfanum.

Verði ykkur að góðu!

Halla Lúthersdóttir.

DEILA