Ég er mjög hrifin af pottréttum og finnst þeir einstaklega sniðugir þegar maður er að halda stórt matarborð. Einfaldir, góðir og einfalt meðlæti til dæmis gott brauð og kartöflumús. Ferskt salat er líka mjög gott með sem og hrísgrjón.
Þessi er fyrir 4-6.
Innihald:
Lamba prime, 1 kg
Gulrætur, 200 g
Rauðlaukur stór, 1 stk
Sellerístilkar, 2 stk
Perlulaukur, 12 stk
Tómatpúrra, 30 m
Lambakraftur, 20 ml
Rósmarín ferskt, 1 grein
Lárviðarlauf, 2 stk
Rauðvín, 1 dl
Hunang, 10 ml
Tómatar, 2 dósir
Hvítlauksrif, 10 stk
Steinselja, 8 g
Hveiti, nóg til að hylja kjötið
Aðferð:
- Skrælið og skerið rauðlauk í fernt, skrælið perlulaukana, hvítlauksrifin og skerið sellerí og gulrætur í grófa bita.
- Skerið lambið í um 3 cm bita og veltið upp úr hveiti. Hitið olíu í djúpum potti og brúnið kjötið vel, en þetta er best að gera í nokkrum skömmtum svo kjötið brúnist sem best. Færið á disk til hliðar.
- Steikið grænmetið í nokkrar mín í pottinum og bætið þá tómatpúrru út í og steikið í nokkrar mín til viðbótar. Bætið rauðvíni út í og látið sjóða niður í smástund.
- Bætið tómötum, lambakrafti, kjöti, rósmarín, lárviðarlaufum og hunangi út í pottinn og náið upp suðu. Lækkið hitann svo það rétt kraumi í pottinum og látið svo malla undir loki í um 2.5-3 klst eða þar til kjötið er orðið svo mjúkt að það losnar auðveldlega í sundur. Fleytið fituna ofan af réttinum og smakkið til með salti og pipar.
- Saxið steinselju og hrærið saman við réttinn rétt áður en maturinn er borinn fram.
Verði ykkur að góðu!