Fram kemur í svari Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Ingibjörgu Isaksen (B) um staðsetningu á þyrlu Landhelgisgæslunnar að verulegur viðbótarkostnaður fylgir því að vera með þyrlur staðsettar á fleiri en einum stað á landinu, bæði hvað viðhaldsmál og aðstöðu varðar en ekki síst hvað áhafnir varðar. Kostnaður við slíka breytingu, án tillits til aðstöðu, viðhalds- og leyfismála og fleira þess háttar nemur yfir einum milljarði króna hið minnsta , segir í svarinu.
Tveir staðir – þrjár nýjar áhafnir
Helstu skýringin á þessum mikla aukna kostnaði snýr að mönnun. Sex þyrluáhafnir starfa hjá stofnuninni sinna bakvöktum í viku í senn, allan sólarhringinn. Innan þess tímabils fljúga áhafnir skipulögð eftirlits- og æfingaflug og bregðast við útköllum. Þess á milli er áskilið að áhafnarmeðlimir séu staðsettir á höfuðborgarsvæðinu, í að hámarki 15 mínútna fjarlægð frá Reykjavíkurflugvelli, tilbúnir að bregðast við ef þörf krefur. Þá segir í svari ráðherrans: „Ljóst er að slíkt fyrirkomulag gengur ekki upp ef áhöfn á að vera á viðbragði frá Akureyri. Til að tryggja viðbragðsgetu allan sólarhringinn þyrfti að minnsta kosti þrjár viðbótaráhafnir við þær sex sem eru starfandi í dag, með tilheyrandi launa- og þjálfunarkostnaði auk kostnaðar við viðbótarflugtíma til að uppfylla kröfur um þjálfun hvers áhafnarmeðlims.“
Ráðherra: betri þjónusta ef tveir starfsstaðir
Dómsmálaráðherra segir í svarinu að hans mat er og einnig Landhelgisgæslu Íslands að kostir eru fólgnir í því að staðsetja þyrlu utan höfuðborgarsvæðisins og hefur þá m.a. verið horft til Norðausturlands, einkum Akureyrar eða Egilsstaða. Með því móti væri hægt að tryggja skemmri viðbragðstíma og auka þjónustu á Norður- og Austurlandi.
Þetta er kjarni málsins. Ákveðið hefur verið að velja einn starfsstað og þar með minnsta kostnaðinn. En það er á kostnað þjónustunnar, sem verður lakari á ákveðnum svæðum landsins. Íbúar þeirra svæða búa við minna öryggi og lakari heilbrigðisþjónustu. Þetta á við um Norðurland eins og fram kemur í svarinu, en það á ekki síður við um Vestfirði.
Dýrt fyrir norðan
Útvarp allra landsmanna, RÚV, sagði svo frá málinu með fyrirsögninni:
Kostar meira en milljarð að hafa þyrlu LHG fyrir norðan.
Þetta er vissulega sjónarhorn. Miðað við að velja ódýrasta kostinn sem viðmiðun þá eru aðrir kostir dýrari. Út frá þessari forsendu er þeim sem vilja bætta þjónustu á fjarlægum svæðum gert að vinna stuðning fyrir auknum ríkisútgjöldum. En það er líka annað sjónarhorn, sem er að nauðsynleg þjónusta ríkisins eigi að vera nokkuð jafngóð um landið. Í því sjónarmiði er það oft talið óviðunandi að aðeins sé um miðlæga þjónustu að ræða, þar sem þá búi fjölmargir landsmenn við mun lakari þjónustu eða aðgengi að t.d. heilbrigðisþjónustu en ásættanlegt sé. Ódýrasti kosturinn er samkvæmt þessu ekki raunhæfur valkostur og geti ekki verið nein viðmiðun.
Fyrirsögnin á frétt RÚV hefði alveg getað verið : Lakari nauðsynleg þjónusta fyrir norðan sparar milljarð króna.
Viljum við veita lakari þjónustu fyrir norðan og fyrir vestan í svona mikilvægri þjónustu?
Hvenær verður spurt að því?