Nettó og körfuknattleiksdeild Vestra endurnýja samstarfssamning

Góð stemning í hópnum við undirritun samningsins í vikunni. Mynd: aðsend.

Körfuknattleiksdeild Vestra og Nettó hafa endurnýjað samstarfssamning sín á milli en Nettó hefur um margra ára skeið verið einn helsti styrktaraðili körfuboltahreyfingarinnar á Ísafirði.

Í fréttatilkynningu frá Vestra og Samkaupum segir að með undirritun samningsins haldi Nettó því áfram að styðja við blómlegt íþróttalíf í bænum, en Nettó hefur lagt ríka áherslu á að styðja vel við íþróttastarf á landsvísu og sér í lagi þar sem hægt er að hvetja og styðja börn og unglinga til að láta til sín taka. 

„Það er okkur sönn ánægja að undirrita þennan samning og halda áfram að styðja vel við bakið á körfunni hérna á Ísafirði. Við hjá Nettó höfum lagt mikla áherslu á að hafa jákvæð áhrif á samfélagið okkar og þá eru íþróttir og lýðheilsa efst á blaði. Karfan á sér sérstakan stað í hjörtum Ísfirðinga og það verður einstaklega spennandi að fylgjast með öflugu liði Vestra í vetur,” segir Brynhildur Benediktsdóttir, verslunarstjóri Nettó á Ísafirði.

„Vestri leikur í 2.deild Íslandsmótsins í körfubolta í vetur og hefur liðið staðið sig vel það sem af er móti og er sem stendur í 4. – 6. sæti deildarinnar með 8 stig eftir 5 leiki. Lið Vestra í vetur er að mestu skipað efnilegum heimamönnum í bland við eldri reynslubolta og hefur verið góð aðsókn á heimaleiki liðsins í vetur. Stuðningur jafn öflugra bakhjarla og Nettó skiptir okkur því gífurlegu máli og við erum afar þakklát fyrir það góða samstarf sem Vestri og Nettó hafa mátt fagna og koma til með að halda áfram að fagna næstu ár,” segir Baldur Smári Einarsson, gjaldkeri körfuknattleiksdeildar Vestra. 

DEILA