Ísafjarðarbær: formlegar tillögur eru vinnugögn undanþegin aðgengi almennings

Formlegar tillögur Örnu Láru Jónsdóttur, bæjarstjóra um fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2023 og framkvæmdaáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2023-2033 eru vinnugögn og því undanþegin rétti almennings til aðgangs að þeim, samkvæmt svörum upplýsingafulltrúa Ísafjarðarbæjar og verða ekki gerðar opinberar fyrr en eftir síðari umræðu í bæjarstjórn.

Bæjarstjóri lagði framangreindar tillögur fram á fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar í síðustu viku. Er rækilega bókað að fjárhagsáætlunin og framkvæmdaáætlunin séu lagðar fram. Fram fór atkvæðagreiðsla um báðar áætlanirnar og þeim vísað til síðari umræðu. Fyrir almenning og fjölmiðla er ógjörningur að kynna sér efni þeirra þar sem þær eru ekki birtar og ósk Bæjarins besta um að fá afrit af áætlununum var synjað.

Skýringar sem gefnar eru af hálfu Ísafjarðarbæjar eru þær að um sé að ræða vinnugögn sem séu undanþegin upplýsingarétti. Réttur almennings nái ekki til aðgangs að þeim gögnum.

Samkvæmt ákvörðun Ísafjarðarbæjar eru breytingartillögur Örnu Láru Jónsdóttur, bæjarstjóra við fjárhagsáætlunina, sem lagðar voru fram á sama fundi, opinberar og aðgengilegar, en fjárhagsáætlunin sjálf er skilgreind sem vinnugagn og verður ekki birt. Þykir ekki rétt að fjölmiðar og almenningur geti kynnt sér efni áætlunarinnar né heldur framkvæmdaáætlunar næstu ára.

Með þessari ákvörðun eru stærstu tillögur sem bæjarstjórn afgreiðir á hverju ári og varða alla bæjarbúa gerðar að leyniskjölum sem almenningur megi ekki sjá né kynna sér fyrr en eftir, á þegar búið er að greiða atkvæði um þær og þá aðeins í endanlegu formi en ekki í upprunalegu hafi tillögurnar tekið breytingum.

Í 8. gr. upplýsingalaga eru vinnugögn skilgreind þannig að þau teljast gögn sem stjórnvöld hafa ritað eða útbúið til eigin nota við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta máls. Til vinnugagna teljist einnig gögn sem unnin eru af nefndum eða starfshópum sem stjórnvöld hafa sett á fót með formlegri ákvörðun og fastmótuðu hlutverki.

Loks segir í 8. greininni að það beri að að afhenda vinnugögn ef þar kemur fram endanleg ákvörðun um afgreiðslu máls sem skýrir það að áætlanirnar verða gerðar opinberar eftir síðari umræðu í bæjarstjórn, þ.e. þegar greidd hafa verið atkvæði um þessar tillögur um ráðstöfun fjár bæjarbúa næsta og næstu árin.

Umrædd lagaákvæði komu inn í upplýsingalögin í desember 2012 og flutningsmaður var þáverandi forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir.

Í frumvarpinu segir að meginmarkmið laganna sé að tryggja gegnsæi í stjórnsýslunni og við meðferð opinberra hagsmuna. „Tilgangur þess sé m.a. sá að styrkja upplýsingarétt og tjáningarfrelsi, þátttöku almennings í lýðræðissamfélagi, aðhald fjölmiðla og almennings með stjórnvöldum, möguleika fjölmiðla til að miðla upplýsingum um opinber málefni og traust almennings á stjórnsýslunni.“

-k

DEILA