Heilbrigðisráðuneytið: unnið að greiningu á mönnun

Í Heilbrigðisráðneytinu er nú unnið að umfangsmikilli mönnunargreiningu þvert á heilbrigðiskerfið sem mun hjálpa okkur við að kortleggja mönnunina í dag og þörfina til framtíðar. Jafnhliða er unnið að fjölgun nemenda, efla samstarf milli stofnanna, tilfærslu verkefna og nýtingu nýrrar tækni.

Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn frá Bæjarins besta um þjónustuna í Súðavík.

Ráðuneytið hefur áður svarað því til vegna ályktunar sveitarstjórnar Súðavíkur, þar sem kvartað var yfir óviðunandi þjónustu lækna í Súðavík þar sem misbrestur hefur verið á því að læknar séu við þegar heilsugæsluselið í Súðavík er opið, að það væri á er á ábyrgð forstjóra heilbrigðisstofnana í hverju heilbrigðisumdæmi að skipuleggja og manna þjónustuna í umdæminu.

Í framhaldi af þessu svari var ráðuneytið innt eftir því hvort það væri ekki mál Heilbrigðisráðuneytisins þegar læknisþjónustu væri óviðuandi um árabil eins og verið hefur í Súðavík samkvæmt ályktun sveitarstjórnarinnar.

Til viðbótar því að unnið er að mönnunargreiningu kemur fram í síðara svari ráðuneytisins að Landsráð um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu hafi verið stofnað á síðasta ári og „vinnur það að margvíslegum sértækum greiningum á stöðu mönnunar og menntunar og hefur þegar gert ýmsar tillögur að úrbótum. Skipulag og mönnun heilbrigðisþjónustu innan heilbrigðisumdæma er hinsvegar á ábyrgð forstjóra heilbrigðisstofnana.“

DEILA