Þessi uppskrift vekur alltaf mikla lukku og það sem mér finnst mesti kosturinn við hana að þetta er algjör veislumáltíð en er frekar ódýr líka. Þess vegna er hún alveg kjörin ef búist er við mörgum í mat. Við byrjum á fyllingunni og kryddleginum. Þessi uppskrift er passleg fyrir 1-3 svínalundir ca. 500gr hver.
Kryddlögur:
1 bolli ólífuolía
1/4 bolli soja
1 msk rósmarín (endilega ferskt ef maður á það til, annars þurrkað)
Öllu blandað saman og leyft að standa á meðan fyllingin og lundin er undirbúið.
Fylling:
1 laukur, smátt saxaður
2 hvítlauksgeirar, kramdir
100g sveppir.
Rifinn mozarellaostur…eftir smekk!
Sólþurrkaðir tómatar, smátt saxaðir – magn eftir smekk, mér finnst passlegt að vera með ca. hálfa dós.
Aðferð:
Laukur og sveppir steiktir upp úr smá ólífuolíu. Tómötum bætt við, og dass af tómataolíunni hellt yfir. Hvítlauknum bætt útí. Örlítið salt og pipar. Mozarella ostinum bætt við svo hann bráðni. Sett til hliðar og leyft að kólna.
Þá er það lundin sjálf:
Hún er snöggsteikt á pönnu og lokað á alla kanta. Þar næst er skorið djúpt í hana og hún fyllt með fyllingunni góðu. Best er að nota sláturgarn til að loka lundinni, en tannstönglar virka líka vel. Lundin er svo pensluð með kryddleginum. Eldað við 180°c í 15 min ca.
Gott meðlæti eru hrísgrjón og gott salat.
Verði ykkur að góðu!