„Allir eru velkomnir á bleikt boð Sigurvonar, bæði konur og karlar,“ segir Helena Hrund Jónsdóttir, formaður krabbameinsfélagsins en aðgangur er ókeypis á skemmtun félagsins sem fer fram í Edinborgarhúsinu á Ísafirði á fimmtudagskvöld. Aðgangur er ókeypis en tilgangur boðsins er að þakka bæjarbúum þann velvilja og hlýhug sem þeir sýna Sigurvon ár eftir ár, að sögn Helenu. „Við höfum vanalega haldið bleikt boð annað hvort ár en það féll niður í covid. Við viljum því halda sérlega vel upp á það í ár.“
Dagný Hermannsdóttir, Svanhildur Garðarsdóttir og Guðmundur Hjaltason munu flytja tónlistaratriði. Með veislustjórn fara Bergþór Pálsson og Albert Eiríksson og Hjördís Þráinsdóttir mun flytja reynslusögu. Þá verða smárréttir í boði Elínar og Hugljúfar Ólafsdætra „Við vonum innilega að sem flestir sjái sér fært að koma og eiga með okkur góða kvöldstund,“ segir Helena. Hvatt er til þess að sem flestir klæðist eða skreyti sig með bleiku en það er þó engin krafa.
Bleika boðið hefst kl. 20 í Edinborgarsalnum. Sjá má nánari upplýsingar um boðið í viðburði á samfélagsmiðlinum Facebook.
Bleikt boð Sigurvonar | Facebook