Framkvæmdir við Galtarvirkjun í Garpsdal í Gilsfirði eru á lokastigi. Fyrir nokkrum dögum var sett niður síðasta rörið í aðrennslispípu Galtarvirkjunar. Þá má segja að búnaður virkjunarinnar sé kominn að mestu leyti. Inntaksmannvirki var byggt í fyrrasumar, skurðurinn fyrir pípuna var grafinn þá en ekki var hægt að klára hann fyrir veturinn.
Frá þessu er greint á Reykhólavefnum.
Pípan liggur gegnum Garpsdalsmelinn og niður að sjó við Múlaá þar sem stöðvarhúsið er. Það var byggt í vor og sett niður vélasamtæða og tengibúnaður við raflínu í sumar.
Nokkuð mikið efni þurfti að færa til við skurðgröftinn því skurðurinn er 10 – 15 m. breiður og 12 m. djúpur þar sem hann er dýpstur.
Galtarvirkjun verður rennslisvirkjun, sem þýðir að ekkert uppistöðulón verður gert. Þrýstipípa virkjunarinnar verður grafin niður, svo lítið sést af mannvirkjum þegar framkvæmdum er lokið.
Áætlað er að virkjað rennsli verði um 1,23 m3/s. Staðsetning inntaks verður norður af Garpsdalsvatni og frá inntaki verður lögð um 2,4 km löng þrýstipípa að stöðvarhúsi neðan gamla þjóðvegarins. Fallhæð verður um 84 metrar og uppsett afl virkjunarinnar verður 950 kW.
Það er fyrirtækið AB- Fasteignir ehf sem stendur fyrir framkvæmdunum. Stjórnarformaður þess er önfirðingurinn Birkir Þór Guðmundsson.
Myndir: Reykhólavefurinn.