Piff hátíðin: fjölbreytt dagskrá í fjóra daga

Fjögurra daga dagskrá alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar Pigeon International Film Festival, eða Piff, hefur verið birt á heimasíðu hátíðarinnar. Piff fer fram á norðanverðum Vestfjörðum dagana 13.-16. október og hefst á opnunarhátíð í Ísafjarðarbíói fimmtudaginn 13. október. Dagskránni lýkur svo með allsherjar verðlaunaafhendingu á Dokkunni á Ísafirði sunnudaginn 16. október.

Frítt er á hátíðina og allar sýningar í boði ýmissa fyrirtækja. Sýndar verða myndir frá hátt í 30 löndum. Um er að ræða um 60 myndir svo sem frá Póllandi, Íran, Bútan, Mexíkó og Austurríki. Margir kvikmyndagerðarmannanna sækja hátíðina sem er nú haldin í annað sinn.

Um er að ræða 25 stuttmyndir, fimm heimildarmyndir, sjö kvikmyndir í fullri lengd og svo einnig barna – og teiknimyndir. En alls bárust skipuleggjendum hátíðarinnar rúmlega 2.000 umsóknir frá vongóðum kvikmyndagerðarmönnum frá 64 löndum sem vildu sýna á hátíðinni.

Nánari upplýsingar er að finna á piff.is og Facebooksíðu hátíðarinnar.

DEILA