7. janúar 1948 – 20. september 2022.
Á 8. áratug síðustu aldar kom Samúel reglulega í Ísafjarðarkirkju gömlu, þar sem kannaðir voru möguleikar knéfiðlunnar. Voru æfðir skalar í ýmsum tóntegundum. Og þótt það sé að vísu umdeilt meðal tónlistarmanna, hvort tónstigar séu eins þýðingarmikið undirstöðuatriði og einatt er af látið, og þar af leiðandi vægast sagt alveg bráðnauðsynlegir, – því að sumir gera lítið úr því, – þá ganga aðrir svo langt að staðhæfa, að öll músík sé ekkert annað en mismunandi afbrugðningar af skölum; jafnvel eru þeir, sem halda því fram, að hinum stórkostlega Beethoven hafi verið með öllu fyrirmunað að semja laglínu og því sé dásamleg og óviðjafnanleg tónlist hans ekkert annað en sífelld og margendurtekin hlaup upp og ofan tónstiga. Samúel var að nálgast þrítugsaldurinn, þegar hann hóf rannsóknir sínar á cellóleik og þótt ýmsir telji, að þá sé fullsteint af stað farið, þá skal á móti spurt, hvort hljóðfæraleikur sé langsótt eða vitlaust viðfangsefni jafnvel gömlum manni? Segir ekki hinn spaki Cíceró á einum stað, að þegar hann frétti, að Sókrates hefði lagt stund á hörpuslátt í ellinni, hafi vaknað hjá honum áhugi á að gera slíkt hið sama? Eða hélt ekki hinn katalónski stórmeistari knéfiðlunnar, Casals, áfram að spila langt fram á tíræðisaldur? Og hafði aldrei verið leiknari en þá, að því er kunnugir sögðu. Og hvað um píanósnillinginn Hóróvitsj?
Það er sest varfærnislega á borðstofustól, nær alveg fremst á setuna, hárbeittum pinnanum stungið af fullkominni, grímulausri forherðingu á kaf ofan í rándýran og stífbónaðan línóleum-gólfdúkinn, og svo gáð að því vandlega, hvort C-skrúfan í sniglinum nemi ekki svona nokkurn veginn við snepilinn á vinstra eyra. Sumir kennarar hafa staðhæft, að við hljóðfærið skuli setið eins og maður, sem tekur utan um konu, sem snýr í hann bakinu. Síðan er boginn spenntur; gljáfægð silfurskrúfan hert um nokkra snúninga, svo að stríkkar á myrru-bornu hrosshárinu. Margir hafa lagt ríkt á við nemendur sína að gleyma ekki að slaka á boganum í hvert sinn sem þeir leggja frá sér hljóðfærið, en herða svo ekki að nýju fyrr en farið er aftur að spila, og þá mátulega. Ekki er í raun haldið á boganum, heldur er hann látinn hvíla á þumalfingrinum.
Aldrei að horfa á vinstri höndina! Hendurnar séu alveg óháðar hvor annarri! Taka ofboðslega áhættu við spilamennskuna; þora að hætta öllu til! Ekki vera hræddur við hljóðfærið! Þú ert ekki læknir; það er engin hætta þótt þú spilir vitlausa nótu ellegar falskan tón! Stundum er sagt, að í tóni knéfiðlunnar sé jafnan heilmikið groms. Í skáldsögunni Homo Faber eftir Max Frisch segir stúlkan Sabeth, þegar hún heyrir asna hrína, að það minni sig á celló.
Samúel Einarsson var drengur góður, prúðmenni, mjög músíkalskur, svo sem og Kristín, systir hans, og trygglyndur vinur. Guð blessi minningu hans, huggi og styrki ástvinina. Guð varðveiti Ísafjörð, byggðina í faðmi hinna bláu fjalla, og Vestfirðinga alla, bæði nær og fjær.
Gunnar Björnsson, pastor emeritus.