Sigurjón Árni Ólafsson fæddist 29. október 1884 á Hvallátrum, vestustu byggð á landinu, rétt við Látrabjarg. Foreldrar hans voru Ólafur Jónsson, f. 1853, d. 1947, síðar bóndi í Króki á Rauðasandi, og Guðbjörg Árnadóttir, f. 1858, d. 1892, húsmóðir.
Sigurjón lauk stýrimannaprófi 1906 og var háseti og stýrimaður í siglingum og á fiskveiðum 1900-1917 og skipstjóri 1918-1919. Hann var afgreiðslumaður Alþýðublaðsins í Reykjavík 1919-1927, fátækrafulltrúi 1922-1927 og afgreiðslumaður og verkstjóri hjá Skipaútgerð ríkisins 1930-1942.
Hann var formaður Sjómannafélags Reykjavíkur 1920-1951 og alþingismaður fyrir Alþýðuflokkinn 1928-31, 1934-42 og 1946-48. Hann var einnig forseti ASÍ 1940-42, átti sæti í félagsdómi 1938-1944 og í sjó- og verzlunardómi Reykjavíkur frá 1930 til æviloka, var yfirskoðunarmaður ríkisreikninganna 1938-1943 og frá 1947 til dauðadags, og sat í Landsbankanefnd 1936-1953.
Eiginkona Sigurjóns var Guðlaug Gísladóttir, f. 1892, d. 1951, húsmóðir. Þau eignuðust tólf börn.
Sigurjón lést 15.4. 1954.
Morgunblaðið.