Skv. upplýsingum Bæjarins Besta sendi ísfirska nýsköpunarfyrirtækið Kerecis í gær bréf til hluthafa þess í tilefni loka rekstrarárs fyrirtækisins 30. september. Í bréfinu kemur fram að tekjur fyrirtækisins hafi vaxið um 149% á milli ára og verið 72 milljónum dollara sem samsvarar rúmlega 10 milljörðum króna. Til samanburðar þá voru samanlagðar tekjur Hraðfrystihúsins-Gunnvarar hf og Jakob Valgeirs ehf. á síðasta ári um 10 milljarðar króna – það er því ljóst að Kerecis er orðið tekjuhæsta fyrirtækið sem er með höfuðstöðvar á Vestfjörðum.
Talsverður munur er þó á arðsemi Kerecis og fiskvinnslufyrirækjanna tveggja, en í bréfinu kemur fram að hagnaður Kerecis sé enn sem komið er óverulegur. Samanlagður hagnaður Hraðfrystihúsins-Gunnvarar hf og Jakob Valgeirs ehf. á síðasta ári var hinsvegar tæpir þrír milljarðar króna. Í bréfinu kemur jafnframt fram að búist sé við áframhaldandi hraðri tekju- og hagnaðaraukningu Kerecis á næstu árum.
Bæjarins Besta hafði samband við Guðmund Fertram stofnanda og forstjóra Kerecis sem sagði: „að um sé að ræða bráðabirgðartölur en ljóst sé að það gangi gríðarlega vel í rekstri Kerecis og enn frekari vöxtur sé framundan á nýju rekstrarári“
Jafnfram koma fram að hjá Kerecis starfa nú alls um 400 manns og eru flestir staðsettir í Bandaríkjunum. Um 70 starfa á Ísafirði í Íshúsfélagshúsinu, Norðurtanganum og Neista. Skv. fyrri umfjöllun Bæjarins Besta hefur fyrirtækið jafnfram haft uppi áform um nýbyggingu á Ísafirði.
Bæjarins Besta fjallaði einnig nýverið um að talsverðar framkvæmdir standa yfir í Norðurtangahúsinu, sem starfsmenn Kerecis kalla Hátæknisetrið-Norðurtanga eða HN húsið. Til stendur að flytja hluta starfseminnar sem er í Íshúsfélagshúsinu í HN húsið ásamt öllu skrifstofuhaldi sem er núna í Neista.