Byggðin á Ingjaldssandi er umlukt háum fjöllum á alla vegu nema í átt til hafs. Helsta samgönguleiðin á landi var og er Sandsheiði, sem tengir Ingjaldssand við norðurströnd Dýrafjarðar, en heiðarvegur þessi liggur í um 530 metra hæð yfir sjávarmáli. Á vetrum var oft mjög erfitt að brjótast yfir heiðina enda stundum teflt í fullkomna tvísýnu, ekki síst á árunum kringum aldamótin 1900 þegar læknir var kominn á Þingeyri og hinir hraustustu menn á Sandinum lögðu á heiðina í hvaða veðri sem var til að sækja lækninn ef líf lá við.[Til næstu nágranna í Önundarfirði munu Sandmenn oftast hafa farið á sjó en á landi er um tvær leiðir að ræða, báðar mjög slæmar. Önnur þeirra er fjallvegurinn Klúka sem liggur norður af Sandsheiði en þótti mun verri leið (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal). Hin er fjöruleiðin undir Hrafnaskálarnúp sem líka má heita illfær (sjá hér Villingadalur og Mosdalur).
Af þessum landfræðilegu ástæðum er eðlilegt að líta á Ingjaldssand sem alveg sérstakt byggðarlag þó að íbúafjöldinn þar hafi ekki verið talinn nægilegur til þess að Sandmenn mynduðu hrepp einir sér. Frá ómunatíð hafa íbúar þessarar ystu byggðar við Önundarfjörð tilheyrt Mýrahreppi sem einnig nær yfir alla norðurströnd Dýrafjarðar. Prestakallið Dýrafjarðarþing náði líka yfir allan Mýrahrepp en Sandurinn var þó alltaf sérstök kirkjusókn með kirkju sína á Sæbóli. Á fyrri tíð áttu fáir eða engir jafn oft leið yfir Sandsheiði og prestarnir í Dýrafjarðarþingum en vetrarferðir á annexíuna á Sæbóli reyndu oft mjög á þrek þeirra og þor. Séra Sigtryggur Guðlaugsson, sem var prestur í kalli þessu frá 1904-1938, taldi sig hafa farið 900 sinnum yfir Sandsheiði á sínum prestskaparárum og alltaf gangandi eða ríðandi því bílvegur var ekki lagður yfir heiðina fyrr en alllöngu síðar.
Yfir Sandsheiði var farið í fyrsta sinn á bíl um verslunarmannahelgi árið 1948. Enginn vegur var þá á heiðinni en ferð þessi var farin á Willysjeppa. Bílstjóri var Guðni Ágústsson á Sæbóli en með honum var Þórður Magnússon sem þá var kaupfélagsstjóri á Flateyri. Bílfært varð yfir heiðina í lok júní eða byrjun júlí sumarið 1950 en þungaflutningar með bifreiðum hófust þó ekki fyrr en þremur árum síðar.
Af vefsíðunni sögurogsagnir.is