Guðmundur Hjaltason, tónlistarmaður frá Ísafirði, var útnefndur bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar 2022 við hátíðlega athöfn í Tónlistarskólanum á Ísafirði laugardaginn 22. október.
Guðmundur, eða Gummi Hjalta eins og mörg þekkja hann, hefur verið í tónlistarbransanum um áratuga skeið og glatt samferðafólk sitt með tónlistarflutningi á ýmsu formi. Meðal annars hefur hann staðið að og tekið þátt í uppsetningu söngleikja og stórra tónlistarviðburða, komið fram sem trúbador og í fjölda hljómsveita.
Í einni tilnefningu sem barst menningarmálanefnd segir:
„Svo víða hefur Gummi Hjalta komið við í lista- og músíklífi Ísafjarðarbæjar að hann hefur verið sérlegur undirleikari og tónlistarstjóri sjálfra jólasveinanna, þeirra Hurðaskellis og Stúfs.“
Gummi tók við útnefningunni frá Örnu Láru Jónsdóttur, bæjarstjóra, og flutti að sjálfsögðu tónlist fyrir gesti í Hömrum.