Bolungavík: sjólögnin fór í sundur í briminu

Viðbyggingin risin. Myndir: Arctic Fish.

Það óhapp varð í Bolungavík að sjólögnin, sem verið er að leggja frá hinu nýja laxasláturhúsi út í sjó, fór í sundur. Með löginni er sóttur sjór til nota við slátrunina. Daníel Jakobsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Arctic Fish staðfesti þetta í samtali við Bæjarins besta. Hann sagði að búið hefði verið að leggja út 200 metra af lögninni af alls 1000 metrum og lögnin hefði farið í sundur við Brimbrjótinn. Hann sagði að lögnin hefði verið tekin á land og væri verið að skoða hana. Ekki hefðu orðið skemmdir á sjóbrunninum sem er í Brjótnum og sjólögnin tengist í.Beðið yrði með frekari útlagningu þar til athugun væri lokið og metið hefði verið hvort þurfi að endurhanna lögnina. Daníel sagði ekkert hægt að segja til um tjónið enn sem komið er en sagði að framkvæmdum við sláturhúsið yrði haldið áfram og að á þriðja tug starfmanna væru að störfum.

Næsta skref er að steypa botnplötu viðbyggingarinnar við sláturhúsið og væri áformað að það yrði gert um leið og stytti upp. Steypt yrði í tveimur áföngum, mögulega á föstudaginn og sunnudaginn.

Viðbyggingin við nýja laxasláturhúsið. Járnabindingin í gólfinu komin vel á veg.

DEILA