Arnarlax hefur kynnt fyrir Skipulagsstofnun áform um að breyta afmörkun eldissvæða sinna við Hlaðsbót, Tjaldanes, Hringsdal og Kirkjuból í Arnarfirði. Breytingin felst í rýmri afmörkun eldissvæðanna þannig að betur verði hægt að staðsetja eldiskvíar innan þeirra.
Rekstrarleyfi Arnarlax fyrir 10.000 tonna ársframleiðslu á laxi var veitt á árinu 2016 á sex eldissvæðum í Arnarfirði þ.e. við Haganes, Steinanes, Hringsdal, Kirkjuból, Hlaðsbót og Tjaldaneseyrar. Rekstur sjókvíaeldis Arnarlax í Arnarfirði hófst á árinu 2014 og hefur félagið stundað eldi þar í átta ár.
Sjálft telur fyrirtækið að ekki sé þörf á sérstöku umhverfismati vegna breytinganna og að gildandi umhverfismat dugi. Um það segir í skýrslu Arnarlax núna:
„Fyrirhugaðar breytingarnar eru byggðar á reynslu og þekkingu sem fyrirtækin hafa viðað að sér síðustu árin við sjóeldisstarfssemi á Vestfjörðum. Þannig er áformað að staðsetja kvíar sem best með tilliti til strauma og koma fleiri kvíum fyrir til að dreifa lífrænni ákomu frá eldinu og til að minnka þéttleika eldisfisks í eldiskvíum. Þessi breyting hefur í för með sér betri eldisskilyrði fyrir eldisfisk og mögulega minnka álag á botnlag djúpsjávar í firðinum.“
Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar tók málið fyrir á fundi sínum í vikunni og telur nefndin að nægjanlega sé gert grein fyrir framkvæmdinni í framlögðum gögnum framkvæmdaaðila og telur að framkvæmdin kalli ekki á gerð umhverfismats.
Að fengnum umsögnum mun Skipulagsstofnun taka ákvörðum um það hvort gera þurfi sjálfstætt umhverfismat eða að fyrirliggjandi skýrsla um breytingarnar sé nægjanleg.