Vörukarfa ASÍ hækkaði í fjórum af átta matvöruverslunum og lækkaði í fjórum verslunum á fjögurra mánaða tímabili, frá byrjun maí til byrjun september. Mest hækkaði vörukarfan hjá Hagkaup, 4,6% og næst mest hjá Heimkaup, 4,3%. Mest lækkaði vörukarfan í Krambúðinni, 3,9% og um 2,6% hjá Krambúðinni.
Vörukarfa ASÍ endurspeglar almenn matarinnkaup meðalheimilis. Þess ber að geta að hér eru einungis birtar upplýsingar um verðbreytingar milli verðmælinga. Ekki er því um beinan verðsamanburð að ræða þ.e.a.s. hvar ódýrustu vörukörfuna var að finna.
Mest hækkaði vörukarfan í Hagkaup, 4,6% og hækkaði verð í versluninni í öllum vöruflokkum nema einum. Mest hækkaði kjötvara og grænmeti í verði hjá Hagkaup en einnig verð á brauð- og kornvöru, mjólkurvörum og hreinlætis- og snyrtivöru.
Næst mest hækkaði verð hjá Heimkaup, 4,3% og hækkaði verð í öllum vöruflokkum verslunarinnar nema flokki grænmetis. Í Heimkaup hækkaði verð á ávöxtum og kjötvöru mest. Lítil hækkun var á vörukörfunni í Bónus, 0,9% og Krónunni, 0,4%. Hafa ber í huga að verð í flokki kjötvöru, grænmetis og ávaxta getur sveiflast milli kannanna.
Mest lækkaði verð í Krambúðinni, um 3,9%, 2,6% í Kjörbúðinni, 2,2% í Nettó og 1,5% í Iceland. Verslanirnar eru allar hluti af verslanakeðju Samkaupa. Verð á mjólkurvöru, ostum og eggjum lækkaði í öllum fjórum verslununum sem og verð á ávöxtum og grænmeti. Verð á drykkjarvöru í þremur verslunum verslunarkeðjunnar en stóð í stað í Nettó. Verð á hreinlætisvöru lækkaði einnig í öllum þessum verslunum nema Iceland.