Skipulagsstofnun: forstjórinn hætti í gær

Ásdís Hlökk Theódórsdóttir. Mynd: Visir.is

Í gær var óvænt tilkynnt að Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar hefði látið af störfum en hún hafði gegnt starfinu frá 2013. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, þáverandi umhverfisráðherra, framlengdi skipan hennar í kyrrþey í september 2018 til 5 ára til 1.8. 2023.

Sigurður Ingi Jóhannsson, Innviðaráðherra, sem fer með málefni Skipulagsstofnunar, var inntur eftir því í gær hvers vegna breytingin hefði orðið. Hann svaraði því til að Ásdís Hlökk hefði óskað eftir því að hætta og ætlaði sér að fara aftur inn í Akademiuna.

Ólafur Árnason, forstöðumaður nýsköpunar og þróunar hjá Skipulagsstofnun, hefur verið skipaður í embætti forstjóra stofnunarinnar frá 1. september til 31. desember 2022.

Að sögn Sigurðar Inga er nú til skoðunar hjá ráðuneytinu hvernig stofnunin heyrir undir ráðuneytið. Hér er Skipulagsstofnun sjálfstæð stofnun en á Norðurlöndunum er þetta með öðrum hætti og sambærileg stofnun tengdari ráðuneytinu.

Eftir að skipan fyrrverandi forstjóra var framlengd árið 2018 urðu óvæntar vendingar í áætlunum um vegagerð í Gufudalssveit og þar lék Skipulagsstofnun stórt hlutverk. Stofnunin setti fótinn fyrir vegagerð um Teigskóg og fékk því framgengt að tekin var upp athugun á þverun yfir utanverðan Þorskafjörð, svonefnd Reykhólaleið. Norska fyrirtækið Multiconsult og ráðgjafarfyrirtækið Viaplan lögðu sig fram um að gylla Reykhólaleiðina og véfengja og hallmæla tölum Vegagerðarinnar, sem taldi þá leið mun dýrari og lakari að mörgu leyti. Fram að þessu höfðu heimamenn, Vegagerðin og Fjórungssamband Vestfirðinga verið samstiga í leiðavali. Að lokum varð þó niðurstaðan sú sama og áður hafði verið ákveðið.

Segja má að þessi U beygja sem þarna varð í málinu hafi tafið vegagerðina um Gufudalssveit um a.m.k. tvö ár og væri verkinu nú lokið ef ekki hefði komið til þessara ómálefnalegu afskipta Skipulagsstofnunar.

-k

DEILA