Orkubússtjóri: vilji sveitarstjórnarmanna á Vestfjörðum er skýr

Elías Jónatansson, Orkubússtjóri.

Elías Jónatansson, Orkubússtjóri segir í tilefni af samþykkt Fjórðungsþings Vestfirðinga um þjóðgarð á Vestfjörðum að vilji sveitarstjórnarmanna á Vestfjörðum sé skýr, þeir vilji tryggja mögulega orkuöflun innan Friðlandsins í Vatnsfirði.

Eliías segir að til þess að fá betri heildarmynd af afstöðu Fjórðungsþings til raforkumála á Vestfjörðum sé heppilegt sé að skoða bæði ályktunina um þjóðgarð og ályktunina „Aflstöðin Vestfirðir“ sem einnig var samþykkt á Fjórðungsþingi.

„Í ályktun um þjóðgarð segir m.a.:  „Fjórðungsþing leggur áherslu á að ekki verði settar íþyngjandi takmarkanir við framtíðarorkuöflun innan marka þjóðgarðsins….“  Varla er hægt að orða þetta skýrar, vilji sveitarstjórnarmanna á Vestfjörðum er að tryggja mögulega orkuöflun innan Friðlandsins í Vatnsfirði.

Þá segir um afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum, í ályktuninni um Aflstöðina Vestfirði :  „Áhersla er lögð á að tryggja eftirfylgni skýrslu starfshóps umhverfis-, orku- og auðlindaráðherra sem kom út í apríl sl., í kjölfar málþings um orkumál á Vestfjörðum þ. 6. apríl sl.  Í skýrslunni er sett fram kostnaðarmat og tímasett áætlun um framkvæmd verkefna allt til ársins 2030 sem tryggja eiga samkeppnishæft afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum.“  (https://www.stjornarradid.is/library/02-Rit–skyrslur-og-skrar/Raforkumal_Vestfjarda_skyrsla_2022.pdf)

Í skýrslunni er einmitt gerð tillaga um að umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra skoði hvort fýsilegt sé að lyfta friðlýsingarskilmálum Friðlandsins í Vatnsfirði svo hægt sé að taka Vatnsfjarðarvirkjun til umfjöllunar í rammaáætlun 4, eða öðru því regluverki sem Alþingi kann að ákveða varðandi mögulega virkjanakosti. 

Það er mikilvægt í þessu sambandi að hafa í huga að OV telur að þeir friðlýsingarskilmálar sem eru í gildi um Friðlandið í Vatnsfirði banni ekki framkvæmdir vegna orkumannvirkja, enda var Mjólkárlína lögð um Friðlandið í kringum 1980, eða 5 árum eftir að friðlýsingarskilmálar um Friðlandið urðu til.

Í ályktuninni segir enn fremur:  „Fjórðungsþing Vestfirðinga bendir enn og aftur á að samgöngur, fjarskipti og orkumál eru efst í forgangsröðun svæðisins.“

Ætla má að bygging virkjunar í Vatnsdal og tenging hennar í tengivirkið í Mjólká muni ásamt tvöföldun tenginga á norðan- og sunnanverða Vestfirði, auka afhendingaröryggið um 90% í þéttbýli á norðan- og sunnanverðum Vestfjörðum þar sem um 90% Vestfirðinga búa.  Það er því óhætt að fullyrða að ákvörðun um byggingu virkjunar í Vatnsdal væri á pari við ákvörðun um byggingu Vesturlínu á sínum tíma.

Erfitt er að sjá lausn á orkuskiptum á Vestfjörðum sem ekki felur í sér aukna orkuvinnslu innan Vestfjarða.  Ef ekki verður af aukinni grænni orkuvinnslu innan svæðisins er einsýnt að auka þarf enn frekar við varaafl í formi dísilknúinna varaaflsvéla, enda stefna samgöngur í að verða mjög háðar raforku.

Stuðningur Fjórðungsþings við  áðurnefndar tillögur er hvatning og jafnframt afar mikilvægur, bæði fyrir Vestfirðinga og vestfirskt atvinnulíf.“

DEILA