MERKIR ÍSLENDINGAR – MUGGUR

Listamaðurinn Guðmundur Thorsteinsson, eða Muggur eins og hann er venjulega kallaður, fæddist þann 5. september 1891 á Bíldudal.

Hann var af efnuðum ættum en Pétur J. Thorsteinsson, faðir hans, var mikill athafnamaður á Bíldudal og móðir hans var Ásthildur Guðmundsdóttir.

Fjölskyldan flutti til Kaupmannahafnar þegar Muggur var tólf ára gamall. Þar gafst honum færi á að læra myndlist; fyrst í Teknísk Selskabs Skole og síðar við Konunglega listaháskólann.

Muggur lést aðeins 32 ára gamall úr berklum, en þrátt fyrir að vera ungur að árum skildi hann eftir sig einstakan myndheim sem hann vann með fjölbreyttum aðferðum. Hann notaði vatnsliti, kol og klippti út myndir svo eitthvað sé nefnt.

Meðal þekktustu verka Muggs eru skreytingar hans úr barnabókinni Sagan af Dimmalimm, en í inngangi bókarinnar í útgáfu Helgafells segir:

„Muggur var skáld, söngvari og málari, listamaður af guðs náð. Ef hann hefði náð hærri aldri er mjög erfitt að spá um það, hvaða stefnu list hans hefði tekið, en snilligáfa hans var ótvíræð.“

Muggi var ýmislegt til lista lagt, en hann lék einnig í fyrstu leiknu kvikmyndinni sem gerð var á Íslandi, Sögu Borgarættarinnar í janúar 1921. Þar fór hann með hlutverk Orms Örlygssonar.

Muggur, Guðmundur Thorsteinsson lést þann 27. júlí 1924 í Danmörku.

-Muggur-  Guðmundur Thorsteinsson.



Lágmynd af Muggi á Bíldudal eftir Guðmund Elíasson myndhöggvara.

Jón Kr. Ólafsson á Bíldudal sagði í viðtali í Bautasteini  árið 2018.  „Það var árið 1981, þegar sveitungi minn hann Muggur hefði orðið 90 ára, sem ég ásamt Magnúsi Björnssyni, fyrrverandi oddvita og Guðmundi Hermannssyni, þáverandi sveitarstjóra, hafði forgöngu um að reisa Muggi minnisvarða í fæðingarbænum hans. Björn Th. Björnsson, sá ágæti maður, var eins og menn vita sérfræðingur í Muggi og hjálpaði okkur við að koma málinu í höfn. Við fengum Guðmund Elíasson myndhöggvara til að vinna lágmynd af listamanninum sem settur var á drang sem við fengum hjá Steiniðju Sigurðar Helgasonar. Minnisvarðinn var afhjúpaður 5. september 1981 og flutti Björn Th. þar blaðlaust ræðu sem lengi verður í minnum höfð. Sá snillingur var engum líkur.“

Við minningamark Muggs í Hólavallagarði sem gerður var af Elof Christian Ris­bye og hann sendi frá Kaupmannahöfn til Íslands með skip .  Jón Kr. Ólafsson á Bíldudal hefur sýnt minningu þess sveitunga síns margháttaða virðingu í gegnum tíðina. Frá vinstri;  Ásgeir Nikulás Ásgeirsson, Jón Kr. Ólafsson og  Brjánn Guðjónsson.

Skráð af Menningar-Bakki.

DEILA