Ríkisstjórnin kynnti í vikunni með fjárlagafrumvarpinu fyrir 2023 áform um að hækka fiskeldisgjaldið, sem sjókvíaeldisfyrirtækin greiða í ríkissjóð, umtalsvert á næsta ári. Þriðjungur af eldisgjaldinu rennur í Fiskeldissjóð sem er svo úthlutað til sveitarfélaganna þar sem eldið er stundað. Verð á eldislaxi á erlendum mörkuðum er mjög hátt og reyndar mun hærra en verð á helstu fisktegund landsmanna, þorskinum. Nýleg umræða um fiskeldi eða ekki í Jökulfjörðum er því tilefni til þess að athuga hvað fiskeldið t.d. í Jökulfjörðum gæti skilað í kassa sveitarfélaganna.
Fiskeldisgjaldið á samkvæmt áformum ríkisstjórnarinnar um breytingar á löggjöfinni að miðast við meðalverð ársins á Nasdaq í evrum og vera 5% af því ef það er 4,8 evrur pr kg eða hærra. Reynist meðalverðið lægra er gjaldið lægri prósenta. Meðalverðið mun vera 8 evrur samkvæmt því sem næst verður komist og er í útreikningum gert ráð fyrir því að eldisgjaldið verði 5% af allri framleiðslu.
Þetta þýðir að meðalverðið á laxinum eru um 1.120 íslenskar krónur fyrir hvert kg og þá er eldisgjaldið 56 kr. Athuga ber að eldisgjaldið er innleitt í áföngum frá 2020 með árlegri hækkun og verður innheimt að fullu árið 2026. Á næsta ári verður gjaldið 32 kr. Miðað er við í útreikningunum að fullt gjald sé komið á 56 kr/kg. Í lögunum er kveðið á um innheimtu gjaldsins hvort sem eldisfyrirtækið framleiði að fullu upp í heimildir sínar eða ekki. Því mun fullt gjald alltaf innheimtast af útgefnu eldisleyfi.
Fiskeldisgjaldið rennur að þriðjungi til í Fiskeldissjóð og að tveimur þriðju hlutum í ríkissjóð. Það er ekki hægt að fullyrða að sveitarfélag fái þriðjunginn af fiskeldisgjaldinu sem upprunnið er í sveitarfélaginu en það er líklega samt nærri lagi a.m.k. ef litið er á viðkomandi svæði í heild. Þá gera sveitarfélögin kröfu til þess að fá gjaldið til sín beint og að fullu og verulegur pólitískur þungi er á bak við kröfuna. Því er gert ráð fyrir að sveitarfélögin muni fá þriðjunginn til sín beint. Jökulfirðir eru í Ísafjarðarbæ og tekjurnar fiskeldinu þar eru reiknaðar í bæjarsjóð.
Nú liggur ekki fyrir hvað mætti framleiða mikið af eldislaxi í Jökulfjörðum og er miðað við 20.000 tonna framleiðslumagn. Það á eftir að koma í ljós hvert burðarþolsmat svæðsins verður þegar matvælaráðherra fellst á kröfu bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar um að leggja hinar vísindalegu staðreyndir á borðið og lætur gera matið. Tiltölulega einfalt er að gera sér grein fyrir tekjuáhrifunum á öðru magni en 20.000 tonnum hvort sem það er til hækkunar eða lækkunar.
373 milljónir króna í fiskeldisgjald
Miðað við þessar forsendur verða útflutningsverðmætin af 20.000 tonna eldinu í Jökulfjörðum liðlega 22 milljarðar króna. Fiskeldisgjaldið yrði 1.120 milljónir króna. Til Ísafjarðarbæjar myndu þá renna árlega 373 milljónir króna. Bæjarsjóður hefur öruggja þörf fyrir þennan tekjustofn til þess að mæta þörf fyrir uppbyggingu og bætta þjónustu í bæjarfélaginu.
Það má alveg benda á að ríkissjóður myndi fá 746 milljónir króna – á hverju ári í tekjur af eldinu í Jökulfjörðum. Það munar um minna. Það mætti t.d. verja þessari fjárhæð til samgöngubóta á Vestfjörðum og myndi muna vel um hana.
377 milljónir í útsvarstekjur af beinum störfum
Sveitarfélögin fá einnig tekjur af starfsmönnum fiskeldisins, einkum af útsvari. Það er 14,5% af tekjum. Í skýrslu Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða frá 2015, sem heitir Hagræn áhrif af laxeldisuppbyggingu á Vestfjörðum er miðað við að launakostnaður sé 12% af framleiðsluverðmæti. Samkvæmt þeirri forsendu yrðu launatekjur um 2,6 milljarðar króna af eldinu í Jökulfjörðum og það skilar 377 milljónum króna árlega í útsvarstekjur. Þær myndu trúlega dreifast að mestu á nærliggjandi sveitarfélög og Ísafjarðarbæ fengi mest af þeim en ómögulegt er að spá hvernig dreifing yrði. Ef gert er ráð fyrir að 2/3 hlutar kæmi í hlut Ísafjarðarbæjar eru það 250 m.kr.
Næst er að leggja mat á útsvarstekjur af óbeinum störfum. Þau eru í skýrslu KPMG frá 2017 fyrir Fjórðungssamband Vestfirðinga talin vera um 150 störf á móti 250 beinum störfum af 25.000 tonna eldi í Ísafjarðardjúpi. Er út frá því áætlað að óbeinum störfin verði um 120. Vitað er að launakjörin í fiskeldinu eru yfir meðaltali launa á landinu. Gert er ráð fyrir að í óbeinum störfunum séu launin a.m.k. umrædd meðallaun. Þau eru samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands 823 þúsund kr/mánuði í fyrra. Hvert starf skilar þá 1,4 m.kr. í útsvar á ári og 120 störf gefa 172 m.kr. Enn þarf að gefa sér forsendu um hvað vestfirsk sveitarfélög myndi fá til sín af útsvari vegna óbeinna starfa. Um það eru ófullkomnar upplýsingar og er hér miðað við að helmingur komi í hlut vestfirskra sveitarfélaga. Það eru 86 m.kr. Ef Ísafjarðarbæ fengu 2/3 af því eru það 57 m.kr.
Samtals eru þá útsvarstekjur sveitarfélaganna af beinum og óbeinum störfum 549 m.kr. Útsvarstekjur að meðtöldu fiskeldisgjaldinu er 922 m.kr.
680 m.kr. árlega í bæjarsjóð Ísafjarðarbæjar
Þá er komið að því að draga saman þessa útreikninga. Til sveitarfélaga munu renna nærri einn milljarður króna á hverju ári af sjókvíaeldi í Jökulfjörðum vegna fiskeldisgjaldsins og af útsvari. Til Ísafjarðarbæjar myndu langstærsti hluti þessarar fjárhæðar renna eða 680 m.kr. miðað við forsendurnar. Vestfirsk sveitarfélög myndu fá 800 m.kr. af þessum 922 m.kr. og er þá miðað við að 90% af útsvarstekjum af beinum störfum falli til Vestfjarða.
Nú getur hver og einn metið fjárhagslega þýðingu fiskeldis í Jökulfjörðum út frá þessum upplýsingum og spurt sig hvað sveitarfélögin fá í sinn hlut af engri starfsemi. Hvaða önnur starfsemi verður ef eldið verður bannað og hverju skilar hún? Bæjarfulltrúar í Ísafjarðarbæ verða að velta fyrir sér efnahagslegu áhrifunum af atvinnustarfseminni og því sem þau myndu skila í byggðarlögunum. Eru þau betur sett án þessara miklu tekna og uppbyggingunni sem fylgir?
-k