Framkvæmdastjórn Hafrannsóknastofnunar hefur tekið miklum breytingum það sem af er ári með ráðningum þriggja kvenna í störf sviðsstjóra. Frá og með 1. september síðastliðnum er í fyrsta sinn jafn fjöldi kvenna og karla í framkvæmdastjórn stofnunarinnar.
Eru því alls fjórar konur í framkvæmdastjórn stofnunarinnar en fyrir ráðningu þremenninganna var Berglind Björk Hreinsdóttir mannauðsstjóri.
Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir úr Bolungarvík var nýlega ráðin inn sem nýr sviðsstjóri Botnsjávarsviðs en á því sviði fara fram rannsóknir, vaktanir, stofnmat og ráðgjöf. Guðbjörg Ásta lauk BSc prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 2000 og PhD frá háskólanum í St. Andrews í Skotlandi árið 2005.
Frá þeim tíma hefur hún lengst af unnið hjá Háskóla Íslands, fyrst í stöðu rannsóknasérfræðings, en lengst af sem forstöðumaður við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum þar sem hún byggði upp sérhæfða rannsóknaraðstöðu til rannsókna á strandsjó.
Guðbjörg Ásta hefur fjármagnað og stýrt fjöldamörgum rannsóknaverkefnum á ferlinum og hafa rannsóknir hennar að miklu leyti tengst vistfræði fiska í strandsjó.
Hrönn Egilsdóttir tók nýverið við sem sviðsstjóri Umhverfissviðs sem sinnir margvíslegum rannsóknum á umhverfi hafs og vatna.
Hrönn lauk BSc í líffræði frá Háskóla Íslands árið 2007, MRes frá háskólanum í Plymouth í Englandi árið 2008 og PhD í jarðvísindum frá jarðvísindadeild Háskóla Íslands árið 2017.
Í framhaldsnámi sínu rannsakaði Hrönn súrnun sjávar og líffræðilegar afleiðingar þeirra umhverfisbreytingar „sem nú eru einkar hraðar í hafinu við Ísland“. Hrönn hefur starfað við stofnunina á Botnsjávarsviði frá árinu 2017.
Harpa Þrastardóttir hefur verið ráðin inn sem nýr sviðsstjóri Sviðs gagna og miðlunar. Þar fara til að mynda fram sýnatökur og aldursgreiningar, hugbúnaðarþróun og önnur tölvuþjónusta stofnunarinnar.
Harpa er með BSc og MSc í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og starfaði áður sem gæða-, umhverfis- og öryggisstjóri hjá Colas Ísland. Að auki hefur hún rekið Sundskóla Hörpu og kennt sund undir sínum merkjum.