Í samþykkt bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar frá því í síðustu viku um tillögu að strandsvæðaskipulagi fyrir Vestfirði segir um Jökulfirði að „þar sem meirihluti strandlínu reita UN19 (Jökulfirðir) og UN20 (Aðalvík) er friðlýst svæði Hornstranda telur bæjarstjórn það ekki samræmast að heimila uppbyggingu á hafsæknum iðnaði í Jökulfjörðum.“ Þá segir bæjastjórnin að hún sjái mikil sóknarfæri í hófsamri og umhverfisvænni ferðamennsku á svæðinu.
Í greinargerð svæðisráðs með tillögunni segir um reiti UN, umhverfi og náttúra, að á þeim sé ekki gert ráð fyrir starfsemi „sem hefur neikvæð áhrif á náttúru og umhverfi þess, svo sem fiskeldi, skeldýrarækt, haugsetningu, efnistöku, vegum sem þvera firði eða orkuframleiðslu.“
Athygli vekur að tilllaga skipulags- og mannvirkjanefndar til bæjarstjórnar var ekki samþykkt heldur gerðar á henni allmargar breytingar. Tekið var út að nefna það sérstaklega að leyfa ekki fiskeldi í Jökulfjörðum og einnig var fellt brott að óþarfi væri að burðarþolsmeta Jökulfirði.
Eftirfarandi kafli í tillögu skipulags- og mannvirkjanefndar var felldur brott:
„Skipulags- og mannvirkjanefnd tekur ekki undir þær raddir sem hafa heyrst að áður en skipulagið verði staðfest verði að liggja fyrir fleiri upplýsingar eins og fást t.d. með burðarþolsmati vegna fiskeldis eða áhættumati. Nefndin telur óþarfa að burðarþolsmeta Jökulfirði þar sem það er skýr afstaða nefndarinnar að fiskeldi verði ekki leyft í Jökulfjörðum.“
Öll gögn á borðið – burðarþolsmat og áhættumat
Þetta er efnisleg breyting. Það að fella þennan kafla niður felur í sér þá afstöðu að sjónarmiðin í honum fá ekki stuðning, þeim er beinlínis hafnað. Nú segir að heimila ekki hafsækinn iðnað, en fiskeldi er ekki sérstaklega bannað. Það þýðir líka að bæjarstjórnin vill frekari upplýsingar sem fást með burðarþolsmati og áhættumati. Minna má á samþykkt bæjarstjórnar frá 19. júní 2020, en þar segir skýrt „Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar leggur áherslu á að öll gögn verði lögð á borðið, þ.m.t. áhættumat og burðarþol fjarðanna ásamt samráði við íbúa svo hægt sé að taka upplýsta ákvörðun. Það er alveg ljóst að sveitarfélögin við Djúp eiga mikilla hagsmuna að gæta bæði af verndun náttúru og fiskeldi.“
Með því að fella út þennan kafla í tillögu skipulags- og mannvirkjanefndar stendur óhögguð samþykkt bæjarstjórnar frá júní 2020 um öll gögn á borðið, þar með talið burðarþolsmat og áhættumat fyrir Jökulfirði. Að fengnu burðarþolsmati og áhættumati verður líka betur ljóst á hvaða svæðum innan Jökulfjarða fiskeldi gæti komið til greina og í hve miklum mæli.
Bæjarstjórnin gerði einnig í samþykktinni frá 2020 athugasemdir við ákvarðanir ríkisvaldsins um fiskeldi í Djúpinu sem hefðu verið teknar án samráðs. Þar segir: „Sem dæmi um það þá var nýverið lokað fyrir fiskeldi í innanverðu Ísafjarðardjúpi án þess að þau sveitarfélög sem eiga þar hagsmuna að gæta fengu að lýsa afstöðu sinni til þess. Sama átti við þegar að öllu Ísafjarðardjúpi var lokað fyrir laxeldi þegar áhættumat Hafrannsóknarstofnunnar Íslands var gefið út og þar með stöðvuð öll útgáfa leyfa til laxeldis í Ísafjarðardjúpi a.m.k. tímabundið.“
Þrátt fyrir burðarþolsmat upp á 30.000 tonna eldi í Djúpinu er einungis heimilt að leyfa 12.000 tonna eldi og hefur þessi ákvörðun sett verulegt strik í uppbyggingaráform eldisfyrirtækjanna og seinkað þeim. Umsóknir liggja fyrir um eldi en einungis eitt fyrirtæki hefur fengið afgreidd leyfi. Aðrar umsóknir eru í biðstöðu. Það er fyllsta ástæða til þess að halda til haga þessum tafaleikjum af hálfu stjórnvalda sem bitna svo á íbúum svæðisins.
Þá er því bætt inn í samþykkt bæjarstjórnar, sem ekki var í tillögu skipulags- og mannvirkjanefndar, að þar sem svæðiskipulagið sé hugsað til langs tíma sé eðlilegt að bæði séu svæði stækkuð og ný svæði teiknuð inn sem yrðu næst tekin til notkunar ef forsendur breytast til þess að leyfa aukið eða breytt fiskeldi í samræmi við burðarþols- og áhættumat á hverjum tíma. Með öðrum orðum muni strandsvæðaskipulagið taka breytingum í takt við aukna þekkingu á svæðinu og þróun atvinnugreina. Breytingar á staðsetningu, búnaði og tækni eða á lífríki svæðsins geta breytt afstöðu til atvinnustarfsemi eins og fiskeldi. Því sé það óskynsamlegt að banna fortakslaust, jafnvel án þess að kanna umhverfisþætti og bæjarstjórnin virðist einmitt vilja opna fyrir svæðisskipulag sem tekur breytingum í samræmi við öll gögn málsins.
Niðurstaðan samandregin af samþykktum bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar er þá sú að bíða með Jökulfirðina og afla frekari upplýsingar um eldi þar og áhrif þess á lífríkið, en knýja á um að heimila eldi í Djúpinu í samræmi við burðarþolsmat svæðsins. Þar stendur krafan á ríkisvaldið um að falla frá lokun Djúpsins fyrir eldinu fyrir innan Ögurnes. Sú ákvörðun á ekkert skylt við vísindi heldur er pólitísk ákvörðun. Um hana má hafa mörg orð en þau verða geymd að sinni.
-k